Góður nætursvefn er alveg jafn mikilvægur og regluleg hreyfing og hollt mataræði.

Rannsóknir sýna að slæmur svefn hefur samstundis neikvæð áhrif á hormónastarfsemi, æfingagetu og heilastarfsemi.

Svefnleysi getur einnig orsakað þyngdaraukningu og aukið hættu á sjúkdómum.

Aftur á móti getur góður svefn hjálpað þér að borða minna, stundað æfingar af meira kappi og stuðlað að hreysti.

Á síðustu áratugum hefur bæði dregið úr svefngæðum og svefnlengd. Raunin er sú að margir sofa illa.

Ef þú vilt auka á heilbrigði og léttast er góður svefn afar mikilvægur.

Hér eru 17 sannreyndar aðferðir að betri nætursvefni.

1. Fáðu meiri birtu yfir daginn

Dagsbirta eða bjart ljós getur aukið svefngæði og lengd svefns, sérstaklega hjá þeim sem eiga við svefnleysi eða annars konar svefnvandamál að stríða.

2. Reyndu að forðast blátt ljós á kvöldin

Blátt ljós fær líkamann til að halda að það sé dagur. Það eru til nokkrar leiðir til að forðast blátt ljós að kvöldlagi.

3. Ekki neyta koffíns seinni part dags

Koffín getur dregið umtalsvert úr svefngæðum, sérstaklega ef um mikla neyslu er að ræða seint um daginn og á kvöldin.

4. Dragðu úr óreglulegum svefni eða löngum blundi yfir daginn

Áhrifin af því að leggja sig yfir daginn eru einstaklingsbundin. Ef þú átt erfitt með að sofa á nóttunni, hættu þá að leggja þig yfir daginn.

5. Reyndu að sofa og vaka á föstum tímum

Komdu þér upp reglulegu svefnmynstri og þá sérstaklega um helgar. Reyndu að vakna án vekjaraklukku um svipað leyti á hverjum degi ef þú getur.

6. Prófaðu fæðubótarefni sem innihalda melatónín

Fæðubótarefni með melatónín er auðveld leið til að auka svefngæði og sofna fyrr. Taktu inn 1 til 5 mg, hálftíma til klukkutíma áður en þú leggst í rúmið.

7. Hugaðu að öðrum fæðubótarefnum

Ýmis fæðubótarefni á borð við ginkgo biloba, glýsín, magnesíum og lofnarblóm geta hjálpað þér slaka á og sofa betur. Þau geta virkað vel í bland við aðrar aðferðir.

8. Slepptu áfengi

Forðastu áfengi fyrir svefn því það getur dregið úr melatónínframleiðslu á meðan þú sefur og truflað svefnmynstrið.

9. Gerðu svefnherbergið sem huggulegast

Búðu til afslappandi stemningu í svefnherberginu og haltu utanaðkomandi birtu og hávaða í skefjum.

10. Stilltu hitastigið í svefnherberginu

Prófaðu mismunandi hitastig til að finna út hvað hentar þér best. Flestir kjósa hitastig í kringum 20°C.

11. Ekki borða seint á kvöldin

Það getur truflað svefninn og hormónastarfsemina að borða stóra máltíð seint á kvöldin.

12. Slakaðu á og hreinsaðu hugann á kvöldin

Slökunaraðferðir fyrir svefninn geta gert gagn og hafa meira að segja verið notaðar til að meðhöndla svefnleysi.

13. Afslappandi bað eða sturta

Heitt bað, sturta eða fótabað fyrir svefninn getur hjálpað þér að slaka á og aukið svefngæðin.

14. Áttu við svefnvandamál að stríða?

Það eru margir algengir kvillar sem geta valdið slæmum svefni, þar á meðal kæfisvefn. Leitaðu til læknis ef slæmur svefn er viðvarandi ástand hjá þér.

15. Fáðu þér þægilegt rúm, dýnu og kodda

Rannsóknir sýna að rúm, dýna og koddi geta haft mikil áhrif á svefngæði og bak- og liðverki. Prófaðu að fjárfesta í hágæða dýnu á 5 til 8 ára fresti.

16. Æfðu reglulega en ekki rétt fyrir háttatíma

Regluleg hreyfing yfir daginn er ein besta leiðin til að tryggja góðan nætursvefn.

17. Ekki drekka neitt rétt fyrir háttatíma

Dragðu úr vökvainntöku seint á kvöldin og reyndu að míga áður en þú ferð í háttinn.

Að lokum

Svefn gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu.

Ein stór samantekt komst að þeirri niðurstöðu að ónógur svefn eykur hættu á offitu um 89% hjá börnum og 55% hjá fullorðnum.

Aðrar rannsóknir hafa sýnt að minni en 7 til 8 tíma nætursvefn eykur hættu á hjartasjúkdómum og sykursýki 2.

Ef þér er umhugað um heilsu og velferð þína, þá ættir þú að setja svefninn efst á forgangslistann.

Ofangreint efni er eingöngu hluti af ítarlegri grein af vef Authority Nutrition þar sem einnig má finna heimildirnar sem stuðst var við. Lestu alla greinina hér.