Í nýrri bók um núvitund er áherslan lögð á léttleika, gleði og fyndni.

Á yfirborðinu virðist hugleiðsla vera grafalvarlegt ferli. Maður þarf að setjast niður, telja andardrættina samviskusamlega, sleppa tökunum af hugsunum manns og stunda þetta daglega hvort sem maður hefur gaman af því eða ekki.

En það er ekki nálgun Chade-Meng Tan á núvitund. Stofnandi Search Inside Yourself Leadership Institute, sem var upphaflega námskeið í núvitund á vinnustað Google, þjálfar nú starfsfólk vítt og breitt um heiminn. Lífsmottó hans er að „lífið sé of mikilvægt til að taka því alvarlega.“ Hann tileinkar sér þessa lífsreglu í ástundun núvitundar – sem hann útskýrir í nýrri bók eftir sig, Joy on Demand: The Art of Discovering the Happiness Within.

Tan veit vel að það eru til aðrar leiðir til að ná tökum á hugleiðslu (þ.á.m. með heraga og járnvilja) en setur fókusinn á gleði. Í bókinni – skreytt með skopmyndum í hverjum kafla – eru æfingar og grundvallaratriði kynnt svo hægt sé að leggja rækt við núvitund með áherslu á hlýju og léttleika sem gefur lífinu jákvæðan ljóma.

„Með ástundun getur gleði orðið hluti af þér og lífi þínu,“ skrifar Tan. „Það sem er á hlutlausa svæðinu mun verða ánægjulegt og það sem er ánægjulegt mun verða enn ánægjulegra.“ Sjálfur höfundurinn er lifandi sönnun þessarar lífsspeki – titillinn hans hjá Google, eins og hann kom fyrir á nafnspjaldinu hans, var „kampakátur gaur.“

Úr bókinni Joy and Demand

Tan hvetur til léttleika og gamansemi eins og við sjáum þjálfun í núvitund fyrir okkur. Í kaflanum sem ber heitið „Happiness is Full of Crap“ minnist hann á kenningu sem ber hugann saman við „skíragull innan í kúamykju.“ („Miklir andlegir leiðbeinendur eiga það til að vera fyndnir,“ segir hann.) Með öðrum orðum þá kemur hamingjan að innan; en það eru hugsanir okkar sem hindra framgang hamingjunnar og því verðum við að ýta þeim ljóta vana úr vegi, sem er eitt af markmiðum hugarþjálfunar.

Ein af æfingunum sem hann mælir með er tíu mínútna „Hvolpahugleiðsla,“ sem svipar til þess að þjálfa hvolp í fimm skrefum:

 • Slökun: „Slakaðu á og leyfðu hvolpinum þínum
[huganum] að ráfa um. En ef hann skyldi ráfa of langt, lokkaðu hann þá blíðlega til baka.“
 • Fögnuður: „Hvolpurinn er farinn að þekkja þig, laðast að þér og finnst gott að liggja hjá þér. Þú finnur til gleði þegar hann gerir það. Upplifðu líka gleði yfir því að eiga svona elskulegan hvolp þegar þú sérð hann ráfandi um áður en þú lokkar hann blíðlega til þín aftur.“
 • Ásetningur: „Hvolpurinn er nú orðinn að ungum hundi og er tilbúinn undir þjálfun. Þú ásetur þér að halda uppi góðum aga [athygli] á blíðlegan hátt.“
 • Skerpun: „Þegar hundurinn er orðinn vel þjálfaður er kominn tími á að skerpa færni hans [hugaðu vandlega að önduninni].“
 • Takið losað: „Hundurinn er orðinn það vel þjálfaður að það er hægt að gefa honum lausan tauminn … Slepptu tökunum og leyfðu huganum einfaldlega að vera það sem hann er.“
 • Úr bókinni Joy and Demand

  Í annarri mjög svo ánægjulegri æfingu mælir Tan með því að við gefum okkur örlitla stund á klukkutíma fresti á vinnustaðnum til að óska tveimur samstarfsfélögum velfarnaðar og hugsum: „Ég óska þeim alls hins besta.“

  „Þú getur ímyndað þér, ef þú vilt, að þú sért að skjóta þá með „hamingjugeislum“ úr byssunni þinni. Og það þarf ekki að hlaða rafhlöðuna í henni,“ bætir Tan við.

  Þetta er stutta útgáfan af kærleiksríkri hugleiðslu þar sem maður ræktar með sér góðvild og hlýju í garð annarra með því að óska þeim velfarnaðar. Kærleiksrík hugleiðsla skapar jákvæðara hugarfar til manns sjálfs og annarra og fleiri jákvæðar tilfinningar sem enn frekar geta leitt til sterkari tengsla við aðra, betri starfsemi flakktaugar (mælikvarði á hjartaheilsu), færri sjúkdómseinkenna, meiri lífsfyllingu og minna þunglyndis.

  Svo við förum ekki að halda að þessi húmor sé aðeins fyrir þessa síkátu þá gerir Tan lesandanum grein fyrir því að hann er ekki hamingjusamur að eðlisfari. Honum leið mest megnis illa á uppvaxtarárunum. Síðan þá hefur hann stundum barist við erfiðar tilfinningar þar sem honum finnst hann vera einskis virði og gjörsamlega bugaður. En hann trúir því að við getum einnig fundið húmor í miðjum hugarkvölum.

  Rannsóknir sýna fram á það sem hann segir: Ýmsar niðurstöður sýna að húmor geti hjálpað okkur að takast á við áföll. Hlátur leiðir til losunar á dópamíni, eykur blóðflæði og styrkir hjartað. Í einni rannsókn kom í ljós að húmor virkaði betur en jákvæðni til að draga úr neikvæðum tilfinningum. Jákvæð áhrif hláturs er ekkert hlátursefni.

  Svo er núvitund ekki bara fyrir gleðistundirnar. Rannsóknir benda til þess að núvitund og meðferðir sem byggjast á núvitund geti hjálpað nemendum að takast á við bakslög og sjálfsefa, hjálpað uppgjafarhermönnum að takast á við áfallastreituröskun og þeim sem þjást af þunglyndi og kvíða.

  Innan um allar teikningarnar og brandarana er auðvelt að gleyma því að Tan er alvara með núvitund. Hann hefur stundað hana í 21 ár og hugleiðir þrjá tíma á dag. Það geta allir fundið snefil af gleði með rólegri, meðvitaðri öndun eða stuttri kærleiksríkri hugleiðslu, en það þarf samviskusemi til að byggja upp líf þar sem gleðin er ríkjandi ástand.

  Hvað ráðleggur Tan þeim sem vilja feta í fótspor hans? „Ekki hætta og ekki ofgera þér.“ Stundaðu hugleiðslu en ekki meira en þú höndlar. Haltu þig við efnið og ekki gefast upp, en vertu blíð/ur og léttlynd/ur á sama tíma. Þetta er uppskriftin að gleðinni.

  Þessi grein eftir Kiru M. Newman birtist fyrst þann 25. ágúst 2016 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

  Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.