Við eigum að finna til þakklætis þegar okkur er gefið eitthvað – en stundum finnum við til sektarkenndar eða okkur finnst við skuldbundin til að gefa eitthvað á móti. Hér eru fjórar leiðir sem geta hjálpað þér að finna til þakklætis.

Á fjölskylduhátíðum er erfitt að leiða ekki hugann að lækningarmætti þakklætis í lífi okkar. Að upplifa þakklæti getur yljað okkur um hjartarætur, aukið traust okkar og kveikt með okkur löngun til að hjálpa öðrum á móti. En við finnum ekki alltaf til þakklætis þegar okkur er gefið eitthvað.

Okkur gæti fundist við frekar skulda eitthvað.

Að finnast maður standa í þakkarskuld út af einhverju sem manni er gefið getur verið vegna þess að maður trúir því að eitthvað liggi að baki gjöfinni. Hugsaðu út í yfirmanninn þinn sem hrósar þér fyrir vinnusemina eða vininn sem hjálpaði þér að flytja. Kannski líður þér eins og það sé ætlast af þér að borga til baka á einhvern hátt. Kannski ætlast yfirmaðurinn þinn til þess að þú vinnir frameftir; vinur þinn biður þig kannski um lán – og minnir þig á þetta skipti þegar hann hjálpaði þér að flytja sófann.

Rannsóknir benda til þess að það séu nokkrir mikilvægir þættir sem skilja á milli þess hvort maður upplifi þakklæti eða standi í þakkarskuld. Fólk sem telur sig skulda eitthvað upplifir meira af neikvæðum tilfinningum og finnur frekar til streitu heldur en uppörvunar vegna þess að það hefur meiri áhyggjur af því að þurfa að endurgjalda greiðann. Skuldatilfinningin getur einnig dregið úr jákvæðum tilfinningum í garð þess sem gaf gjöfina og leitt til minni áhuga á því að hjálpa viðkomandi í framtíðinni.

Það eru margir þættir sem geta haft áhrif á það hvort gjöf muni vekja upp þakklæti eða skuldatilfinningu hjá þeim sem tekur á móti henni – það getur líka verið í beggja bland. Rannsóknir hafa sýnt að tengslin á milli gefanda og þiggjanda hafi sitt að segja um hvort þiggjandinn upplifi þakklæti eða finnist hann standa í þakkarskuld við þann sem gefur gjöfina. Hversu vegleg gjöfin er og upplifun þess sem tekur við henni skiptir líka máli – hvort sá sem tekur við gjöfinni heldur að hún sé gefin án skuldbindinga eða finnist eitthvað annað liggja að baki. Almennt upplifum við jákvæðari tilfinningar sem tengjast þakklæti þegar manneskjan sem gefur okkur eitthvað er náin okkur, gefur af meira örlæti og við skynjum engar annarlegar ástæður að baki gjöfinni.

Vísindarannsóknir benda einnig til þess að skapgerðin hafi ýmislegt að segja um hvort maður upplifi frekar skuldbindingar en þakklæti. Sem dæmi hafa nokkrar rannsóknir sýnt fram á það að karlmenn virðast líklegri til að standa í þakkarskuld við einhvern heldur en konur þegar þeir frá óvænta gjöf. Það getur mögulega verið vegna samfélagslegra gilda um sjálfskapaða manninn sem engum er háður. Það er erfitt að finna til þakklætis þegar þér finnst þú þurfa að þakka öðrum fyrir velgengni þína, sem útskýrir kannski af hverju svona margar vinkonur mínar kvarta undan litlu þakklæti sem þær fá frá eiginmönnum sínum þegar þær gera eitthvað fallegt fyrir þá.

Menning virðist einnig skipta sköpum. Nokkrar rannsóknir benda til þess að fólk frá Austur-Asíu sé líklegri til að upplifa þakklæti í bland við skuldbindingar þegar því eru gefnar gjafir, að hluta til vegna mikilvægi þess að gefa til baka í þeirra menningu. Rannsóknir hafa líka bent til þess að þakklæti frekar en skyldur og skuldbindingar sé öflugari hvati til að byggja upp og viðhalda félagslegum tengslum.

Fjórar leiðir til að nýta þakklæti til fullnustu

Hvað þýðir þetta allt saman? Kannski ættum við að hlúa betur að tilfinningum sem tengjast þakklæti og lágmarka neikvæð áhrif skuldbindinga. Hér eru nokkur atriði sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað okkur.

1. Hugsaðu um aðra frekar en sjálfan þig

Til að öðlast meiri hamingju er best að huga meira að öðrum en sjálfum sér og einbeita sér að samskiptum sínum við fólkið í kringum mann. Það sama á við um þakklæti – sjálfmiðaðar hugsanir virka ekki. Það er ekki hægt að upplifa þakklæti ef maður er upptekinn af sjálfum sér.
„Þakklæti er tilfinning sem leitar út á við, þegar við einblínum á hvað einhver annar hefur gert fyrir okkur,“ segir Philip Watkins sem hefur unnið við rannsóknir á þakklæti. „Ég held að ósvikið þakklæti sé eðlileg útkoma ef við beinum athyglinni út á við.“

Nokkrar rannsóknir taka undir mikilvægi þess að beina athyglinni út á við til að forðast það að finnast maður vera skuldbundinn einhverjum. Í einni rannsókn kom í ljós að fólk sem er almennt upptekið af sjálfu sér hefur meiri tilhneigingu til að finnast það standa í þakkarskuld við einhvern frekar en að upplifa þakklæti. Í annarri rannsókn upplifðu þátttakendurnir sem settu fókusinn á öryggi og þægindi í samböndum sínum – eigingjarnar hvatir – meiri skuldbindingar og umtalsvert minna þakklæti í samanburði við þátttakendurna sem var meira umhugað um að rækta sambandið – óeigingjarnar hvatir.

„Vandinn við nálgun tískusálfræðinnar á þakklæti er að við höfum lagt svo mikla áherslu á að hamingja sé útkoma þakklætis. Við höfum því tilhneigingu til að sjá þakklæti sem leiðina að hamingju,“ segir Watkins. „Sem er rétt, en þegar við horfum á þakklæti sem leiðina að hamingju í stað þess að sjá tilfinninguna einfaldlega fyrir það sem hún er – að kunna að meta það sem einhver gerir fyrir okkur – þá getur hún allt eins haft öfug áhrif.“

2. Gefðu án skuldbindinga

Það er mikilvægt að gefa gjafir af heilum hug og ekki ætlast til einhvers í staðinn. Ef sá sem þiggur gjöfina heldur að maður vilji fá eitthvað annað á móti þá mun sá hinn sami að öllum líkindum ekki upplifa þakklæti

Að auki mun sá sem þiggur gjöfina vera síður líklegur til að vilja gefa viðkomandi eitthvað á móti eða jafnvel bara að sýna einhverjum öðrum örlæti í sínum tengslahópi. Sem betur fer skiptir peningavirði gjafarinnar litlu máli þegar kemur að þakklæti: Það sem virðist skipta máli er hugulsemi þegar kemur að því að gefa einhverjum gjöf, að vera umhugað um manneskjuna og taka þarfir hennar með í reikninginn.

Að gefa örlátlega og af heilum hug tengist einnig ýmsum umbunum út af fyrir sig, þ.á.m. hamingju. Það eru mun meiri líkur á því að maður njóti þess að gefa ef ekkert liggur að baki. Einnig er líklegra að sá sem tekur við gjöfinni finni fyrir þakklæti og að gefandinn og þiggjandi tengist sterkari böndum.

„Rannsóknir okkar leiða í ljós að það eru minni líkur á því að fá eitthvað á móti ef maður gefur eitthvað í þeim tilgangi að fá eitthvað í staðinn – það hefur þveröfug áhrif,“ segir Watkins. „Það er gleðin yfir sjálfum verknaðinum sem verður að vera að leiðarljósi frekar en hvað maður getur fengið á móti.“

3. Iðkaðu þakklæti þótt það sé ekki í fullri einlægni

Þetta hljómar furðulega. Af hverju ættum við að vilja iðka þakklæti þegar við erum ekki beint í þeim gírnum?

Rannsóknir virðast benda til þess að meðvituð iðkun á þakklæti hafi ekki bara góð áhrif á fólk sem er almennt þakklátt heldur líka á þá sem eru sjálfmiðaðri og eiga erfitt með að upplifa þakklæti, segir Watkins.

„Í öllum þeim íhlutandi rannsóknum sem ég hef stýrt þá eru alltaf einhverjir nemendur sem gera þetta fyrir einingar,“ segir Watkins. „Við leggjum áherslu á að það sé löngunin til að upplifa þakklæti sem skeri úr um hvort iðkunin virki sem skyldi. En kannski er það ekki svo einfalt.“

Þýðir þetta að við ættum að hvetja aðra (t.d. börnin okkar) að iðka þakklæti með einhverjum formlegum hætti? Svarið er líklega já, en það er eitt mikilvægt atriði sem ber að hafa í huga. Börn læra meira af foreldrum sem iðka sjálf þakklæti heldur en foreldrum sem notast við uppeldisaðferðina „gerðu það sem ég segi, en ekki það sem ég geri,“ segir Watkins.

Ýmsar rannsóknir benda til þess að auðvelt sé að hvetja börn til að temja sér hugarfar þakklætis sem leiðir til ýmissa góðra hluta á borð við jákvæðar tilfinningar. Að setjast niður með börnum og fá þau til að leiða hugann að hugulsemi annarra eða fórnirnar sem aðrir hafa fært getur hjálpað þeim að finna til meira þakklætis heldur en ef þau væru eingöngu látin ein um að prófa sig áfram, segir Watkins.

Watkins mælir þó með því að við forðumst að þröngva þessu í gegn. Ef við til dæmis iðkum þakklæti við matarborðið, þá er líklega betra að neyða engan til þess að taka þátt heldur einfaldlega að bjóða öðrum að vera með og tjá þakklæti sitt. Líkt og á við um aðrar jákvæðar tilfinningar, þá virðist þakklæti vera smitandi að einhverju leyti. Aðrir eru líklegir til að leggja orð í belg og þannig komið af stað keðjuverkun góðra tilfinninga.

4. Vertu opin fyrir gleðinni sem fylgir því að gefa og þiggja

Þakklæti lætur okkur líða vel. En að vita hvernig eigi almennt að næra jákvæðar tilfinningar – til dæmis með því að verja tíma í náttúrunni, eiga samtal við náinn vin eða hlusta á tónlist – getur hjálpað manni að magna upp góðar tilfinningar sem geta leitt til meira þakklætis og minni skuldbindinga. Rannsóknir benda til þess að fólk sem kann betur að meðtaka jákvæðar tilfinningar upplifir frekar þakklæti.

Ástundun núvitundar getur líka hjálpað okkur að vera meðvitaðri um gjafirnar í lífinu og fólkið í kringum okkur sem færir okkur sumar þessara gjafa. Hugsanlega er það ástæðan fyrir því að núvitund og þakklæti er oft sett undir sama hatt og virðast vinna saman að aukinni vellíðan.

Watkins bendir á að við getum verið meira vakandi fyrir því að gefa og það sama á við um þakklætistilfinninguna. Hann segir að alltof oft gefum við vegna þess að það er ætlast til þess af okkur og við gleymum þeirri staðreynd að það að gefa er valkostur. Í stað þess að framkvæma í hugsanaleysi getum við hugsað til hinnar manneskjunnar og opnað okkur fyrir gleðinni sem fylgir því að gefa.

„Bara að minna sjálfan mig á það að ég þarf ekki að gera þetta, en mig langar til þess, og ekki gleyma því að sjálfur verknaðurinn, að gefa eitthvað, er til þess að njóta,“ segir hann. „Það finnst mér vera algjört lykilatriði.“

Þessi grein eftir Jill Suttie birtist fyrst þann 23. nóvember 2016 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.