Ekki einangra þig frá öðrum ef þú finnur fyrir stressi eða þér finnst þú vera að missa tökin, segir Kelly McGonigal. Leggðu frekar meiri áherslu á að tengjast öðrum betur.

Eitt kvöldið þegar ég gekk inn í kennslustofuna og var að fara að kenna námskeiðið mitt um streitu og vísindin á bak við hana, tók ég eftir dagblaði í púltinu. Einn nemandinn hafði lesið grein í blaðinu sem bar yfirskriftina „Streita: Hún er smitandi.“ Í greininni var því haldið fram að streita væri „álíka smitandi og bakteríur sem geta borist með lofti“ og líkti skaðlegum áhrifum hennar við óbeinar reykingar.

Í fréttinni var greint frá rannsókn sem leiddi í ljós að þátttakendur hennar sýndu sálræn streituviðbrögð vegna samúðar með einhverjum sem átti í erfiðleikum. Einn af rannsakendunum sagði: „Það kom á óvart að streita skyldi breiðast svona auðveldlega út.“Í fréttinni var greint frá rannsókn sem leiddi í ljós að þátttakendur hennar sýndu sálræn streituviðbrögð vegna samúðar með einhverjum sem átti í erfiðleikum. Einn af rannsakendunum sagði: „Það kom á óvart að streita skyldi breiðast svona auðveldlega út.“

Ég stunda rannsóknir á streitu og hluttekningu og er þar af leiðandi oft spurð út í þessa rannsókn. Þýðir niðurstaða hennar að hluttekning sé baggi sem auki líkurnar á þreytu, þunglyndi og að maður brenni út? Er maður dæmdur til að taka inn á sig sársauka og þjáningu annarra?

Ein lausn á þessu er að setja sér skýrari tilfinningaleg mörk – brynja sig tilfinningalega  svo maður smitist ekki af streitu og þjáningum annarra. Ég hef séð þessa nálgun hjá fullt af fólki sem vinnur við umönnun, t.d. hjá starfsfólki í heilbrigðisgeiranum, félagsráðgjöfum og kennurum.

Ef þú finnur fyrir svipuðum áhrifum, að tilfinningar annarra hellist yfir þig, þá langar mig til þess að bjóða þér upp á annan valkost til að viðhalda vellíðan þinni: leggðu enn meiri áherslu á getu þína til að sýna öðrum hluttekningu. Í stað þess að vera ónæm/ur fyrir streitu annarra, prófaðu að vera móttækilegri fyrir gleði þeirra.

Ávinningur jákvæðrar hluttekningar

Nútímasálfræði hefur að mestu leyti snúist um neikvæða þætti hluttekningar, en nýjar rannsóknir á „jákvæðri hluttekningu“ sýna að það er líka mögulegt að smitast af hamingju annarra.

Þú hefur líklega heyrt af rannsóknum sem sýna fram á það að horfa á annað fólk þjást getur kallað fram þjáningu í okkar eigin heila. Það hefur komið í ljós að heilinn hermir einnig eftir jákvæðum tilfinningum. Þegar maður verður til að mynda vitni að velgengni annarra getur það virkjað umbunarkerfi heilans.

Hamingja sem smitar svona út frá sér getur enn fremur orðið að mikilvægri uppsprettu vellíðunar. Að hafa tilhneigingu til að upplifa jákvæða hluttekningu tengist betri lífsfyllingu, hugarró og hamingju. Hún tengist líka meira trausti, meiri stuðningi og ánægju í samskiptum við manns nánustu.

Fólkið í kringum þig getur líka notið góðs af því þegar þú samgleðst öðrum. Í einni rannsókn var hluttekning kennara yfir gleði annarra skoðuð í fjórtán fylkjum í Bandaríkjunum. Kennararnir sem upplifðu oftar jákvæða hluttekningu í garð nemenda sinna tengdust þeim sterkari böndum. Þessi jákvæða afstaða leiddi af sér fleiri jákvæð samskipti við nemendur og betri námsárangurs hjá þeim samkvæmt mati óháðra aðila sem fylgdust með kennslunni.

Jákvæð hluttekning veitir manni ekki bara betri vellíðan, hún getur líka hvatt mann til að láta gott af sér leiða. Að vera móttækilegri fyrir gleði annarra tengist sterkari löngun til að hjálpa öðrum að dafna og einbeittari vilja til að taka af skarið og gera eitthvað í því. Jákvæð hluttekning eykur líka hlýjuna sem maður finnur innra með sér þegar maður hjálpar einhverjum – sem getur leitt til enn frekari hluttekningar.

Finndu gleðina í litlu hlutunum

Gleði getur verið gildishlaðið orð og við haft tilhneigingu til að leitast eftir dæmigerðum vísbendingum um „mikla“ gleði – einhverjum sem brosir út að eyrum, hrópar yfir sig af gleði og faðmar aðra í fagnaðarlátunum. Gleði sem fylgir því að vinna í lottóinu eða fá bónorð frá elskhuganum.

En gleði kemur fram í alls kyns myndum í kringum mann. Þegar maður byrjar að líta í kringum sig fer maður að taka sífellt betur eftir henni. Gleðinni í nautnum, smáum sem stórum, á borð við að njóta góðrar máltíðar, hlusta á tónlist eða njóta þess að vera með ungabarn í fanginu. Svo er það gleðin yfir því að upplifa einhvern tilgang og að finnast maður vera að leggja eitthvað af mörkum, leggja hart að sér, vaxa og dafna. Og gleðin yfir því að finnast maður vera hluti af einhverju sem er stærra en maður sjálfur, hvort sem það er náttúran, fjölskyldan eða einhvers konar trú. Það er líka gleðin yfir tilverunni, að dásama sköpunina, barnslega forvitnin og nýjar upplifanir.

Það er gleðin yfir því að vera metinn að verðleikum – að finna að maður hafi eitthvað til að gefa af sér og vita að maður sé einhvers virði. Það er gleðin yfir því að vera besta útgáfan af sjálfum sér – tilfinningin sem fylgir því að nýta krafta sína í eitthvað sem manni er umhugað um eða nýta styrk sinn til að láta í ljós það sem er manni kærast. Það er gleðin yfir því að þörfum manns sé mætt – að manni sé hjálpað, að það sé hlustað á mann eða að maður fái kærleiksríkt faðmlag þegar svo ber undir. Það er gleðin sem hlátur vekur hjá manni, sérstaklega í félagsskap annarra, og enn mikilvægara þegar allt virðist vera í ólagi.

Þetta eru aðeins nokkrar leiðir af mörgum til að upplifa gleði. Það er hægt að læra mikið ef maður er bara vakandi fyrir þeim aragrúa tækifæra sem eru í boði til að upplifa gleði við venjulegar aðstæður, en það getur allt eins átt við þegar erfiðleikar steðja að.

Mér finnst hluttekning í gleði annarra vera leið til að taka ekki bara virkan þátt í lífinu þegar vel gengur, heldur líka á erfiðum tímum. Hluttekning einskorðast ekki bara við góðu stundirnar. Hún hjálpar manni að halda í vonina þegar maður stendur frammi fyrir erfiðleikum og þegar þörfum manns er ekki mætt.

Að grípa gleðina

Hvað ef maður virðist eingöngu stilltur inn á streitu annarra, ófær um að verða fyrir áhrifum af hamingju þeirra? Hugsanlega öfundar maður velgengni annarra í stað þess að smitast af gleði þeirra, einangrar sig út af hamingju þeirra og hún minnir mann bara á það sem maður sjálfur þráir og hefur ekki.

Ef svo er, þá ertu ekki ein/n á báti. Heimspekingar og sálfræðingar hafa tekið eftir því að fyrir marga er eðlislægara að finna til hluttekningar með neikvæðum tilfinningum annarra heldur en þeim jákvæðu.

Sem betur fer þarf ekki að reiða sig algjörlega á eðlisávísun; hægt er að verða betri í hluttekningu og upplifa gleði annarra. Í búddískum fræðum er gleði yfir velgengni annarra ein af fjórum „brahmavihāras“ (hinar æðstu dyggðir). Hinar dyggðirnar þrjár eru jafnaðargeð, kærleikur og samúð. Það er hægt að temja sér þennan hugsunarhátt, að upplifa gleði annarra, til að dýpka skilning manns og auka eigin vellíðan. Með þjálfun er hægt að skerpa athyglisgáfuna, skynja betur tilfinningar annarra og gleðjast yfir hamingju þeirra.

Daglegar venjur geta hjálpað þér að grípa gleðina á lofti. Eftir því sem að þú styrkir ásetning þinn í að taka eftir gleði annarra muntu klárlega finna þínar eigin leiðir til að opna þig betur fyrir, og taka þátt í, hamingju annarra. Hér eru fimm daglegar venjur sem eru í uppáhaldi hjá mér:

  • Horfðu á barn eða dýr að leik. Taktu þátt í gleði þeirra, orku og undrun. Leyfðu þér að brosa eða hlæja þegar gamansemi þeirra smitast yfir á þig.
  • Fylgstu með íþróttum og öðrum kappleikjum án þess að halda með neinum. Lærðu að meta keppendurna að verðleikum og alla vinnuna sem þeir leggja á sig – og samgleðstu þeim sem vinnur. Upplifðu gleði yfir árangri þeirra og fylgstu með þeim fagna með öðrum. Sjáðu hvort þú getir aukið hluttekningu þína í gleði þeirra þegar þeir deila sigurstundinni með vinum, fjölskyldu, þjálfurum eða liðsfélögum.
  • Taktu þátt í velgengni einhvers annars. Ef einhver deilir góðum fréttum, biddu viðkomandi um að segja þér frá meiru og hlustaðu af heilum hug. Ef þú tekur eftir afreki eða áfangasigri í lífi einhvers, óskaðu þá viðkomandi til hamingju í tölvupósti eða á facebook. Ekki skrifa eitthvað fyrir siðasakir. Upplifðu gleði viðkomandi og taktu þátt í að gera stundina eftirminnilegri.
  • Taktu eftir því góða í öðrum. Settu þér markmið að taka eftir því þegar aðrir sýna sinn innri styrk á borð við góðvild, heiðarleika, hugrekki eða þrautseigju. Upplifðu gleði yfir því að sjá það góða í öðrum. Finndu til með gleði í hjarta yfir því sem þú tekur eftir í fari annarra. Láttu góðverk annarra veita þér innblástur.
  • Leyfðu öðrum að gera eitthvað fallegt fyrir þig. Þetta gæti hljómað sem eitthvað annað en hluttekning með öðrum, en hluttekningin felst í því að taka eftir gleði hinnar manneskjunnar þegar hún gerir eitthvað fyrir þig. Stundum er það ótti okkar við að vera byrði á öðrum eða óþægindin sem við finnum fyrir þegar einhver sýnir okkur góðvild sem veldur því að við tökum ekki eftir ánægjunni sem hin manneskjan upplifir.

Líkt og Pema Chodron skrifar í The Places that Scare You:

Að gleðjast yfir venjulegum hlutum er ekki væmni eða klisja. Það þarf í raun kjark til. Í hvert sinn sem við hættum að kvarta og leyfum hversdagslegri gæfu að blása okkur byr í brjósti stígum við inn í heim stríðsmannsins. Allt sem við sjáum, heyrum, brögðum á og lyktum af felur í sér krafta sem geta styrkt okkur og lyft okkur upp á hærra plan.

Svona viðhorf getur opnað hjarta manns fyrir því sem að í fyrstu getur virst eins og að maður sé að fella niður allar varnir; að leyfa hluttekningu manns að vaxa og dafna svo maður geti tengst öðrum bæði í gegnum sársauka og gleði þeirra. Og treysta því að hún sé blessun en ekki byrði.

Þessi grein eftir Kelly McGonigal birtist fyrst þann 5. júlí 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.