Hvernig getur maður staðið með sjálfum sér án þess að bregðast öðrum? Hér eru ráðleggingar til að koma sér af stað.

Einlægni er vinsæl þessa dagana. Í fjölmiðlum eru börn og unglingar hvött til að „vera þau sjálf“. Meira að segja í sumarbúðum krakkanna minna hefur „vertu þú sjálfur“ verið útlistað sem grunngildi – ekki bara fyrir krakkana heldur líka ráðgjafa og starfsfólk sumarbúðanna.

En hvað þýðir það eiginlega að „vera þú sjálfur“?

Hinn yndislegi Jeffrey Marsh, frægur fyrir #NoTimeToHateMyself og höfundur bókarinnar How to Be You, hefur ýmislegt að segja um einlægni. Marsh sagði undir lok viðtals sem þáttarstjórnandinn Dennis Michael Lynch tók við hann (í myndbroti sem hefur verið eytt): „Að vera þú felur í sér að taka sjálfan þig í sátt, elska þig og uppgötva hver þú ert.“

Það er augljóslega heillandi hugsun að geta verið einlægur. Hver værir þú ef þú gætir verið „þú sjálfur“? Hvað ef þú hefðir ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst um þig? Ímyndaðu þér tímann og orkuna sem þú myndir spara. Finnurðu fyrir léttinum? Eða finnurðu óttann taka völdin og forðastu að hugsa út í þetta?

Hvernig fer maður eiginlega að því að vera fullkomlega einlægur?

Hér eru fimm ráð sem geta komið þér af stað.

1. Ekki ljúga

Í kjarnanum snýst einlægni um heilindi og að vera samkvæmur sjálfum sér. En flest okkar voru ekki alin þannig upp – okkur var kennt að þóknast öðrum. Okkar var kennt að hvítar lygar séu fullkomlega í lagi. Okkur var kennt að þykjast og setja upp leikrit og haga okkur vel. En með þykjustuleik – jafnvel þótt hann hafi litla merkingu eða sé til þess gerður að vernda einhvern annan – erum við samt að ljúga.

Og að ljúga, skiptir engu hversu oft við gerum það eða færni okkar i því, setur mikið álag á heilann og líkamann. Lygamælingar reiða sig á þetta: Lygamælir mælir ekki lygar heldur mælir hann breytingar á líkamsstarfsemi. Það er eins og alls kyns viðvörunarbjöllur fari í gang þegar við ljúgum, líkt og líkaminn sé að senda okkur skýr skilaboð um að hætta þessu.

Sem betur fer verðum við hamingjusamari og heilbrigðari þegar við erum samkvæm sjálfum okkur. Það er líka eina leiðin að einlægni.

2. Ekki samt segja alltaf sannleikann

Það er gríðarmikill munur á því að lifa í hreinskilni og alltaf segja hug sinn. Í mörgum tilfellum er það hvorki nauðsynlegt né góð hugmynd að deila sínum sannleika.

Stundum er hvorki staður né stund til að segja það sem er manni efst á baugi. En það þýðir ekki að maður megi ljúga. Það er alveg hægt að vera samkvæmur sjálfum sér með þverrifuna lokaða.

Tökum vinkonu þína sem dæmi. Hún spyr þig hvort þér finnist kjóllinn sem hún er í vera flottur. Þér finnst kjóllinn vera ljótur en í stað þess að segja henni það þá geturðu spurt hana hvað henni finnst um hann, t.d. hvort hann sé þægilegur. Þú getur fengið hana til að segja sína skoðun og síðan hlustað með kærleika og nærgætni að leiðarljósi.

Stundum virkar þögnin ekki. Oft er það hlutskipti þess sem að lifir í sínum sannleika að segja það sem liggur honum á hjarta. Ef það er málið og þú veist að það sem þú ert að fara að segja getur sært einhvern eða valdið ruglingi, vertu þá viss um að þú sért að segja þinn sannleika en ekki það sem þú heldur að sé sannindi einhvers annars. Tilfinningar okkar eru alltaf raunverulegar; en gagnrýni okkar hefur sjaldnast með hlutlægar staðreyndir að gera.

Tökum sem dæmi um einhvern sem gerir eitthvað sem þér finnst rangt. Þá þarftu ekki að þegja. En þú þarft heldur ekki að leggja dóm þinn á það. Ekki segja til dæmis: „Það sem þú ert að gera er hræðilegt og rangt og mér finnst að þú eigir að lesa þessa bók svo þú getir áttað þig á villu þinni.“

Segðu þeim frekar þinn sannleika: „Ég verð stressaður og það setur mig úr jafnvægi þegar þú gerir þetta. Þetta fer illa í mig og mér finnst ekki rétt af mér að þegja yfir þessu.“

3. Hlustaðu á hvað líkaminn er að segja þér

Stundum getur það reynst erfitt að vita hver við erum og hvað við viljum. En sem betur fer veit líkaminn alltaf hvað okkur finnst, jafnvel þótt við gerum okkur sjálf ekki grein fyrir því.

Prófaðu að hlusta á hvað líkaminn er að reyna að segja þér á þessari stundu. Segðu eitthvað upphátt sem er alls ekki rétt, helst við einhvern annan. Prófaðu eitthvað í líkingu við: „Ég elska þegar yfirmaðurinn minn gerir lítið úr mér fyrir framan samstarfsfélaga mína,“ eða: „Mér finnst æðislegt að vera með gubbupest.“ Fylgstu svo með því hvernig líkaminn bregst við þessum fullyrðingum. Viðbrögðin verða líklega smávægileg: örlítil spenna í bakinu, kannski stífur kjálki eða smá axlahreyfing. Þegar ég segi eitthvað sem stríðir gegn undirmeðvitund minni reynir líkaminn að senda mér skilaboðin í gegnum magann. Ef ég ver of miklum tíma við að gera eitthvað sem mér finnst rangt endar það með magapínu.

„Að lifa í okkar sannleika gerir okkur sterkari og frjálsari. En lygar hamla og þrengja að okkur.“
―Christine Carter

Prófaðu núna að segja eitthvað upphátt sem er þér kærkomið: „Ég elska hafið“ eða „Ég elska að kúra með nýfæddri dóttur minni.“ Hvernig bregst líkaminn við? Þegar ég segi eitthvað sem er mér kært eða þegar einhver annar segir það við mig, „hríslast sannindin um mig“. Hárin á handleggjunum rísa. Og ef ég er að kljást við eitthvað sem er erfitt viðfangs en rétta svarið kemur til mín koma fram „sannleikstár“. Tár sem gefa djúpstæð sannindi til kynna eru allt öðruvísi en tár sorgar eða þjáningar.

Að lifa í okkar sannleika gerir okkur sterkari og frjálsari. En lygar hamla og þrengja að okkur – við stífnum upp í öxlum og baki, maginn herpist saman.

4. Haltu þig við þín sannindi – og ekki hnýsast í málum annarra

Byron Katie talar um þrjú mál eða málefni: málefnin mín, málefnin þín og málefni Guðs. (Hún flokkar allt sem er fyrir utan mannlega stjórn sem málefni Guðs.) Hún skrifar:

Stór hluti streitu kemur frá því að vera með hugann við málefni annarra. Þegar ég hugsa: „Þú þarft að fá þér vinnu, ég vil að þú sért hamingjusöm, þú verður að vera stundvís, þú þarft að hugsa betur um heilsuna,“ þá er ég að skipta mér af þínum málum. Þegar ég hef áhyggjur af jarðskjálftum, flóðum, stríði eða mínum eigin dauða, þá er ég að skipta mér af málum æðri máttarvalda…

Ég get ekki verið til staðar í mínum eigin málefnum ef ég er með hugann við málefni annarra… Ég er með hugann einhvers staðar annars staðar þegar ég held að ég viti hvað sé öðrum fyrir bestu. Jafnvel í nafni kærleika er það hreinn og beinn hroki og útkoman er spenna, kvíði og ótti. Veit ég hvað er mér fyrir bestu? Það er mitt eina mál. Ég ætti að leiða hugann að því áður en ég fer að leysa vandamál annarra. Ef þú sýnir þessu skilning og einbeitir þér að þínum málum, gætirðu losað þig undan meiri byrði en þú gerir þér grein fyrir.

Einlægni snýst alltaf um að vera maður sjálfur frekar en að hjálpa öðrum að vera eitthvað sem það er ekki. Það er þeirra mál hver þau eru.

5. Taktu sjálfan þig i sátt, líka allar erfiðu tilfinningarnar og það sem þú ert ósáttur við

Það er himinn og haf á milli þess „að vera maður sjálfur“ og að vera fullkomin eða besta mögulega útgáfan af sjálfum sér. Öll erum við mennsk, sem þýðir að við höfum ekki alltaf hlutina á hreinu og oft á tíðum höfum við rangt fyrir okkur.

Þegar við elskum aðeins það í fari okkar sem okkur líkar við, þá höfnum við öllu hinu sem gerir okkur mannleg. Þetta getur leitt til óheilinda. Við förum að fela það sem við erum í raun og veru og sýnum einhverja glansmynd í staðinn. Það eina sem við getum gert er að taka ófullkomleika okkar í sátt með fyrirgefnu og velvild í eigin garð. Og horfast í augu við hvað okkur finnst um eigin galla. Þetta þýðir ekki að við getum ekki þroskast og sigrast á veikleikum okkar. Þetta þýðir einfaldlega að við getum verið við sjálf á þeirri vegferð. Líkt og Leonard Cohen syngur um í laginu sínu „Anthem“:

Ring the bells that still can ring.
Forget your perfect offering.
There is a crack, a crack in everything.
That’s how the light gets in.

Að elska sjálfan sig og taka sig í sátt – alla brestina, þ.m.t. reiðina, óttann, depurðina og smásálarháttinn – er það eina sem gerir okkur kleift að vera einlæg. Það er líka besta gjöf sem við getum gefið sjálfum okkur. Það er ástæðan fyrir því að einlægni gerir okkur hamingjusamari og heilbrigðari og í meiri tengslum við fólkið í kringum okkur.

Þessi grein eftir Christine Carter birtist fyrst þann 21. júní 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.