Rannsóknir benda til þess að forvitni geti verið límið sem styrkir sambönd.

„Forvitnin drap köttinn,“ segir gamalt enskt máltæki. Það gefur í skyn að forvitni sé slæm og að hún leiði til áhættusamrar hegðunar. En þessi sýn er úreld – alla vega hvað mannfólkið varðar.

Forvitni – þörfin til að takast á við nýjar og metnaðarfullar hugmyndir og áskoranir í þeim tilgangi að auka við þekkingu manns – hefur löngum verið sett í samhengi við fræðistörf, heimsreisur, minnisgáfu og lærdóm. Nú hafa niðurstöður nýlegra rannsókna bent til þess að forvitni geti einnig haft eitthvað að segja um sambönd okkar við aðra. Rannsóknir hafa sýnt að í félagslegum aðstæðum sjá margir forvitið fólk sem áhugaverða og geðfellda einstaklinga og þeir eiga auðveldara með að ná til breiðari hóps. Að auki virðist forvitni hjálpa fólki að takast á við neikvæða reynslu á borð við höfnun, sem getur leitt til betri samskipta við aðra til lengri tíma litið.
Hér eru nokkrar ástæður, sem eru byggðar á vísindalegum rannsóknum, fyrir því að forvitni geti bætt samskipti manns.

Forvitið fólk tengist betur

Forvitni felur í sér áhuga á því að upplifa eitthvað nýtt og því gefur það augaleið að hún getur hjálpað manni að tengjast ókunnugum. Rannsóknir hafa sýnt fram á þetta.

Í einni rannsókn, á vegum Todd Kashdan og samstarfsfélaga hans við George Mason háskólann, var hver þátttakandi paraður saman við þjálfaðan „vitorðsmann“ (einstaklingur sem vann með þeim sem stýrðu rannsókninni, eitthvað sem þátttakendurnir vissu ekki af) og þeir áttu að spjalla saman á persónulegum nótum. Þátttakandinn og vitorðsmaðurinn spurðu og svöruðu spurningum á víxl sem urðu persónulegri eftir því sem leið á samtalið – t.d. Ef þú gætir boðið hverjum sem er, lifandi eða dauðum, í mat og spjall, hver myndi það vera og af hverju? Hvenær gréstu síðast fyrir framan aðra manneskju? Vitorðsmaðurinn átti alltaf að notast við sömu svörin, óháð svari þátttakandans.

Þátttakendurnir svöruðu spurningalista bæði fyrir og eftir samtalið og svörin voru notuð sem mælikvarði á forvitni þeirra, tilfinningalíf og félagslegan kvíða (hversu vel þeim leið í félagslegum aðstæðum). Eftir samtalið gáfu vitorðsmennirnir spjallfélaganum einkunn sem byggðist á því hvort þeir löðuðust að honum og hversu vel þeir náðu saman með honum. Og þátttakendurnir reyndu að spá fyrir um hversu vel þeir komu fyrir.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að vitorðsmennirnir hrifust meira af og tengdust betur þátttakendum sem sýndu forvitni. Að auki spáðu forvitnu þátttakendurnir betur fyrir um upplifun spjallfélagans á samtalinu. Jafnvel eftir að tilfinningalíf og félagslegur kvíði þátttakenda var tekinn með í reikninginn – allt saman áhrifaþættir á félagsleg samskipti – hafði forvitnin samt sem áður sérstöðu þegar kom að nánd, sem er vísbending um að forvitni sé eiginleiki sem geti stuðlað að meiri innileika í félagslegum samskiptum.

Niðurstaðan kom Kashdan ekki á óvart. „Að vera áhugasamur er mikilvægara en að vera áhugaverður þegar kemur að því að rækta sambönd og viðhalda þeim; áhugi er það sem heldur samtalinu gangandi,“ segir hann. „Hann er lykillinn að innihaldsríku sambandi.“

Í annarri rannsókn á vegum Kashdan voru þátttakendurnir beðnir um að eiga náið samtal eða létt spjall við aðra þátttakendur sem þeir höfðu ekki hitt áður. Fólkið sem var forvitnara fannst það vera nánara spjallfélaganum í báðum samtalsformunum, eitthvað sem hinir þátttakendurnir upplifðu ekki. Innileiki í samtalinu virðist því ekki skipta höfuðmáli.

„Þegar maður sýnir áhuga og spyr spurninga og kemst að einhverju áhugaverðu í fari hinnar manneskjunnar verður fólk opnara, fer að deila meiru og fer sjálft að spyrja spurninga á móti,“ segir Kashdan. „Þetta setur af stað gagnkvæmni í samskiptum sem ýtir undir nánd.“

Forvitið fólk er hugsanlega betra í að „lesa“ aðra. Í einni rannsókn svöruðu 96 þátttakendur spurningalista um þeirra eigin persónuleika og félagslegan áhuga – um forvitni þeirra í garð annars fólks, hugsanir þess, líðan og hegðun. Þátttakendurnir voru síðan paraðir saman af handahófi og beðnir um að eiga tíu mínútna samskipti sín á milli og giska svo á persónueinkenni spjallfélagans. Þeir sem voru mjög forvitnir gátu giskað betur á hversu opinskár og mannblendinn spjallfélaginn gat verið í samanburði við hina sem voru ekki eins forvitnir. Hugsanlega vegna þess að þeir forvitnu gátu lesið betur í orð og hegðun spjallfélagans.

Saman benda þessar rannsóknir til þess að forvitni geti í eðli sínu hjálpað fólki að tengjast betur og á það jafnt við um fólk sem maður þekkir sem ókunnuga.

Forvitið fólk höndlar höfnun betur

Endrum og eins getum við átt erfitt uppdráttar í félagslegum samskiptum. En það er ýmislegt sem bendir til þess að forvitni geti hjálpað okkur að takast betur á við þessar niðursveiflur.

Í japanskri rannsókn var forvitni einstaklinga á aldrinum 20-39 ára könnuð ásamt lífsánægju þeirra, viðkvæmni þeirra fyrir félagslegri höfnun og útskúfun og reynslu þeirra af henni. Til að mæla áhrif af völdum höfnunar voru þátttakendurnir beðnir um að lesa níu skáldaðar kringumstæður og reyna að spá fyrir um kvíðann og áhyggjurnar sem þeir myndu finna fyrir í þessum aðstæðum og hversu ásættanlegar þær væru fyrir hina manneskjuna. Í tengslum við félagslegt samþykki og útskúfun greindu þátttakendur frá því hversu oft þeir höfðu upplifað samþykki og höfnun frá öðrum.

Greiningin leiddi í ljós að þótt forvitnu einstaklingarnir yrðu fyrir samfélagslegri höfnun þá voru þeir ekki eins líklegir til að upplifa minni lífsfyllingu eða aukið þunglyndi í samanburði við hina einstaklingana sem voru ekki eins forvitnir. Hvað varðar lífsfyllingu, þá átti þetta m.a.s. við um þá sem voru að glíma við félagslegan kvíða. Það er sem sagt eitthvað við forvitnina sem gerir okkur kleift að jafna okkur hraðar á félagslegri höfnun – upplifun sem getur reynst mörgum yfirþyrmandi.

Forvitið fólk er ekki eins yfirgangssamt

Fyrir utan höfnun er yfirgangssemi önnur hegðun sem getur verið skaðleg í sambandi – og hér getur forvitni líka komið að góðum notum.

Í annarri rannsókn voru viðbrögð forvitins fólks í ýmsum tilfinningaþrungnum aðstæðum rannsökuð. Í tilraun sem stóð yfir í tvær vikur voru persónueinkenni þátttakenda mæld (þ.á.m. forvitni) og þeir beðnir um að greina daglega frá öllu því sem olli þeim sárindum, hvernig þeir brugðust við aðstæðunum og hversu nánir þeir voru þeim sem særði þá. Forvitnir þátttakendur greindu frá minni yfirgangssemi gagnvart þeim sem særði þá í samanburði við hina sem voru ekki eins forvitnir á meðan önnur persónueinkenni eins og hreinskilni og samviskusemi höfðu ekki áhrif á yfirgangssemi.

Í annarri tilraun tóku makar þátt í keppni sín á milli sem gekk út á að ýta á takka á undan hinum. Sigurvegarinn átti síðan að velja lengd og styrkleika á háværu hljóði sem taparinn þurfti að hlusta á. Í ljós kom að forvitnu einstaklingarnir voru síður líklegri til að refsa maka sínum fram úr hófi – þeir kusu sem sagt styttri og lægri hljóðstyrk – í samanburði við hina. Þetta átti sérstaklega við um styttri sambönd – og skýringuna var ekki hægt að finna í sjálfsstjórn, hugulsemi eða sjálfsdýrkun makans.

Samkvæmt Kashdan getur þetta haft eitthvað að gera með tengsl á milli forvitni og innsýnar í aðstæður annarra. Hann stingur upp á því að forvitni geti hjálpað til við að leysa ágreiningsmál vegna þess að hún fær mann til að vilja sjá og skilja mismunandi sjónarmið í stað þess að dæma aðra.

„Að sýna stillingu er frábært – maður getur stjórnað sínum eigin viðbrögðum þegar maður stendur í ágreiningi við einhvern sem tekur á tilfinningalega,“ segir hann. „En ágreiningurinn mun halda áfram að krauma undir niðri ef maður reynir ekki af fullri alvöru að skilja sjónarmið hins aðilans.“

Forvitni hjálpar okkur ekki bara til að jafna okkur á neikvæðum samskiptum við aðra heldur virðist hún að auki ýta undir fleiri jákvæðar upplifanir.

Í röð tilrauna voru þátttakendur sem voru annaðhvort með mikinn eða lítinn félagslegan kvíða paraðir saman við spjallfélaga af sama kyni (vitorðsmann) þar sem þeir áttu að eiga samtal sem gekk út á að skapa náin tengsl á milli þeirra, eða þeir voru paraðir saman við einhvern af hinu kyninu (líka vitorðsmann) og áttu annaðhvort að eiga samtal sem gekk út á að skapa náin tengsl eða bara létt spjall. Þátttakendurnir greindu síðan frá jákvæðum og neikvæðum tilfinningum á ákveðnum punktum í samtalinu og greining þeirra var að lokum borin saman við félagslega kvíðann þeirra.

Þátttakendurnir sem skoruðu hátt í félagslegum kvíða voru líklegri til að upplifa neikvæðar tilfinningar þegar þeir áttu létt spjall um daginn og veginn í samanburði við samtalið sem gekk út á að skapa náin tengsl. Forvitnu þátttakendurnir upplifðu aftur á móti jákvæðari tilfinningar í sínum samtölum í samanburði við hina sem voru ekki eins forvitnir og skipti samtalsformið þá engu máli – hvort spjallfélaginn var af sama kyni eða ekki eða hvort samtalið gekk út á að skapa nánd eða bara létt spjall um hitt og þetta. Þetta bendir til þess að forvitni elur af sér jákvæðni í félagslegum aðstæðum, m.a.s. hjá þeim sem þjást af félagslegum kvíða.

Almennt er litið á forvitið fólk sem jákvæða einstaklinga í félagslegum aðstæðum. Í einni rannsókn var fimm mínútna samtal milli forvitins þátttakanda á vegum rannsóknarinnar og ókunnugrar manneskju tekin upp á myndband þar sem þátttakandinn mátti tala um hvað sem hann vildi. Forvitnu einstaklingarnir voru jákvæðari í tjáningu, sýndu meiri húmor og voru glaðlyndari, frjálsari í hugsun og sýndu minni varnarviðbrögð og voru ekki eins dómharðir og hinir þátttakendurnir sem sýndu ekki eins mikla forvitni.

Kashdan talar um að forvitni geti hugsanlega hjálpað ástarsamböndum til lengri tíma litið því eitt af lykilatriðunum til að koma í veg fyrir sambandsslit sé að viðhalda áhuganum. Hann vísar í eina rannsókn eftir Arthur Aron sem sýnir fram á að flest sambönd endi ekki út af ósætti eða vegna erfiðleika í fjármálum heldur út af leiða. Að gera eitthvað nýtt og áhugavert saman getur verið lykillinn að jafnvel enn meiri nánd í langtímasambandi, segir hann.

Þessi rannsókn ásamt öðrum benda til þess að forvitni leiði til félagslegra samskipta á jákvæðari nótum og upplifunin verði ánægjulegri fyrir alla.

Er hægt að auka forvitni?

Forvitni virðist hjálpleg í samskiptum við aðra – eða forvitnu fólki virðist að minnsta kosti farnast betur félagslega. En stóra spurningin er hvort hægt sé að temja sér forvitni eða er hún meðfædd?

Samkvæmt Kashdan þá veit það engin fyrir víst – þetta hefur ekki verið rannsakað nógu mikið til að hægt sé að fá úr því skorið. En það virðist vera hægt að temja sér ýmsa aðra jákvæða þætti – líkt og örlæti, samúð og hluttekningu – sem bendir til þess að svo geti einnig átt við um forvitni. Úr því að forvitni getur sveiflast til yfir daginn, þá er líklega hægt að kveikja í henni á meðvitaðan hátt.

Þegar kemur að samskiptum við aðra þá mælir Kashdan með því að maður hætti ekki að reyna fyrr en það tekst („fake it ´til you make it). Að spyrja opinna spurninga – sem spyrjandinn veit ekki svarið við – og sýna áhuga og spyrja fleiri spurninga í kjölfarið eykur líkurnar á því að hin manneskjan opni sig sem mun hugsanlega vekja hjá manni enn meiri forvitni.

„Að spyrja opinna spurninga getur oft leitt til þess að hin manneskjan mun deila meiru sem fyrir vikið getur kveikt hjá manni áhuga,“ segir hann.

Forvitni getur verið erfið, auðvitað. Stundum getum við verið smeyk við að hafa samskipti við fólk sem er öðruvísi en við, sem við setjum kannski á hærri stall af einhverjum ástæðum – kannski er manneskjan mjög myndarleg, gáfuð, farsæl eða kemur bara vel fyrir. En að gefa sig óttanum á vald leiðir líklega til eftirsjár frekar en hamingju, segir Kashdan.

„Það sem við vitum út frá vísindalegum rannsóknum er að stærsta eftirsjáin kemur ekki af því að reyna og mistakast heldur af því að reyna ekki. Það er aðgerðarleysið sem angrar okkur meira,“ segir hann.

Hann færir rök fyrir því að leiðin að góðu lífu sé vörðuð forvitni. Ef við sækjumst eftir því að uppgötva það sem er áhugaverðast í fari hvers annars munum við styrkja sambönd okkar sem fyrir vikið leiðir til meiri hamingju.

„Það er kannski ekki svo einfalt mál að auka hamingju manns, en það er hægt að breyta hugarfarinu – sýna meiri forvitni – á líðandi stundu, sem yrði þá stórt skref í átt að ánægjulegra lífi.“

Þessi grein eftir Jill Suttie birtist fyrst þann 31. maí 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.