Nýjar rannsóknir benda til þess að fólk sem hlær saman geðjast betur hvert að öðru.

Victor Borge skrifaði eitt sinn: „Hlátur er stysta fjarlægð milli tveggja einstaklinga.“ Margir munu líklega sammælast um það að hlátur færi okkur nær hvert öðru, hvort sem það er í ró og næði með makanum eða á uppistandi í sal fullum af ókunnugu fólki.

Hlátur hefur samt ekki alltaf góð áhrif á sambönd. Það getur t.d. átt við þegar vinur þinn hlær að einhverju vandræðalegu sem kemur fyrir þig eða kærastinn sem hlær að gríni sem gengur fram af þér. Þannig hlátur getur haft öfug áhrif.

Í nýrri rannsókn var kannað hvenær hlátur virkar sem samfélagslegt lím – og hvenær ekki. Yfir höfuð getur einlægur hlátur hjálpað okkur að líða betur, en sameiginlegur hlátur kemur hugsanlega þeim skilaboðum áleiðis að við höfum svipaða sýn á lífinu sem fyrir vikið styrkir samband okkar við viðkomandi.

Vísindamenn við Háskólann í Norður-Karólínu, Chapel Hill, prófuðu að skapa sameiginlegan hlátur með vísindalegum aðferðum til að geta mælt áhrifin sem hann hefur á samskipti milli tveggja einstaklinga sem þekkja ekki hvorn annan.

Þátttakendurnir horfðu á fyndið, ekki svo fyndið og alls ekki fyndið myndband á meðan þeir voru með annan þátttakanda af sama kyni í vefmyndavél að horfa á sömu myndböndin. Það sem þátttakendurnir vissu ekki var að hinn aðilinn í vefmyndavélinni var upptaka af einhverjum sem hló jafnmikið á fyrstu tveimur fyndnu myndböndunum en aðeins stöku sinnum yfir því ófyndna. Í fyrsta myndbandinu var mikið um sameiginlegan hlátur, í öðru myndabandinu var hann í lágmarki og ekki til staðar í því þriðja.

Þátttakendurnir svöruðu spurningum skriflega um jákvæðar og neikvæðar upplifanir, hvernig þeim fannst þeir ná saman með hinum aðilanum og hversu mikið þeim líkaði við hann og langaði til að kynnast honum.

Niðurstöðurnar sýndu að því meira sem var um sameiginlegan hlátur, þeim mun meira fannst þátttakendum eins og þeir ættu eitthvað sameiginlegt með hinum aðilanum – og það hafði fyrir vikið áhrif á hversu vel þeim líkaði við hinn aðilann og hversu mikinn áhuga þeir höfðu á því að kynnast honum betur.

„Þegar tveir einstaklingar hlæja saman gefur það þeim ómeðvitað merki um að þeir deili svipuðum viðhorfum og fyrir vikið upplifa þeir sterkari tengsl um stundarsakir,“ segir félagssálfræðingurinn Sara Algoe sem stýrði rannsókninni ásamt Lauru Kurtz. „Að finnast makinn deila svipuðum lífsviðhorfum og maður sjálfur er stór hluti af þróun ástarsambanda.“

Þessar niðurstöður eru á svipuðum nótum og tvær aðrar kannanir sem þær stýrðu, þar sem þátttakendur svöruðu spurningum um nýleg samskipti sem þeir áttu við einhvern – í þetta skipti við einhvern nákomin. Þátttakendur sem gáfu lýsingar um meiri sameiginlegan hlátur (í samanburði við hlátur sem var ekki sameiginlegur), sögðu að þeir upplifðu meira af jákvæðum tilfinningum og minna af neikvæðum á meðan á samskiptunum stóð, litu svo á að þeir ættu meira sameiginlegt með manneskjunni og voru ánægðari með samskiptin. Niðurstöðurnar voru þær sömu þegar aðrir þættir voru útilokaðir sem gátu útskýrt jákvæðu tilfinningarnar. Þættir á borð við hversu langt aftur samskiptin náðu og hversu mikil umhyggja var tjáð í orðum og með líkamstjáningu.

Niðurstöðurnar eru líka í takt við eldri rannsóknir Söru Algoe sem sýndu fram á tengsl hláturs við gæði, nánd og félagslegan stuðning í samskiptum fólks. Að hlæja með öðrum – ekki bara hlátur almennt – er það sem gagnast samböndum hvað best.

Hvernig getum við nýtt okkur þessa vitneskju? Sara Algoe leggur til að makar finni leiðir til að hlæja saman til að auka nándina, sérstaklega áður en tekist er á við erfið málefni. Að sama skapi telur hún að sameiginlegur hlátur á vinnustöðum geti þjappað fólki betur saman og þar af leiðandi aukið vinnuafköst.

Hverjar svo sem praktísku leiðirnar geta verið þá trúir Sara Algoe því að uppgötvun hennar geti leitt til frekari rannsókna á hlátri og að hún sýni mikilvægi þess að skoða hlátur í félagslegu samhengi til að skilja betur áhrif hans.

„Að hlæja í einrúmi getur haft jákvæð félagsleg áhrif en það er svo mun áhrifaríkara að hlæja með einhverjum öðrum.“

Hún gerir sér líka vonir um að rannsóknir á borð við hennar hvetji aðra til að rannsaka litlu hversdagslegu athafnirnar sem hjálpa fólki að tengjast betur í samböndum sínum. Hún bendir til dæmis á rannsókn eftir fyrrverandi nemanda sinn þar sem helmingur allra textaskilaboða sem pör sendu á milli sín innihéldu eitthvað grín sem þau deildu hvort með öðru.

„Við lítum svo á að þetta sé vísbending um að sameiginlegur hlátur sé mjög mikilvægur þáttur í samskiptum fólks, þáttur sem mörgum yfirsést,“ segir Algoe. „Hann getur hjálpað fólki að styrkja böndin sín á milli í hversdagsleikanum.“

Þessi grein eftir Jill Suttie birtist fyrst þann 4. ágúst 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.