Það kann að hljóma undarlega en ný rannsókn sýnir að ef horft er á myndefni af einhverju sem vekur gleði geti það haft áhrif á hvað makanum finnst um sambandið sitt.

Að vera giftur einhverjum sem maður elskar er meiriháttar. En það getur reynt á gott hjónband til lengri tíma litið út af álaginu sem fylgir oft hversdagslífinu – uppeldi barna, langir vinnudagar eða langvarandi heilsufarsvandamál – sem getur valdið erfiðleikum í sambandinu og jafnvel leitt til skilnaðar.

Hvað getur bjargað hjónabandinu? Samkvæmt nýlegri rannsókn sakar víst ekki að horfa á myndefni af börnum og dýrum.

Í þessari rannsókn voru 144 hjón fyrst spurð út í hversu hamingjusöm þau voru í hjónabandinu og síðan voru teknar myndir af þeim sitt í hvoru lagi, bæði brosandi og ekki brosandi. Að nokkrum dögum liðnum tóku þau próf þar sem myndin af makanum, ekki brosandi, var notuð (ásamt myndum af öðrum) sem gekk út á að mæla ómeðvitaðar jákvæðar og neikvæðar tilfinningar sem makar höfðu í garð hvors annars.

Eftir prófið var hjónunum skipt niður í tvo hópa af handahófi og látin gera tilraun þar sem þau voru beðin um að horfa snöggt á myndaraðir á stafrænu formi og ýta á bilstöngina á lyklaborðinu þegar þau sáu myndir af einhverju sem var búið að ákveða fyrirfram hvað væri – t.d. mynd af brúðkaupstertu. Þetta var gert til að afvegaleiða þátttakendurna frá raunverulegum tilgangi tilraunarinnar.

Sumar myndirnar voru af jákvæðu efni eins og hvolpum og fílsungum eða hlutlausu efni eins og hnöppum og stólum, jákvæðum eða hlutlausum orðum (eins og „frábært“ og „það“), og myndir af makanum brosandi. Í fyrri hópnum kom myndin af brosandi makanum alltaf fyrir á eftir jákvæðu orði eða jákvæðri mynd en í seinni hópnum birtist myndin af brosandi makanum á eftir hlutlausu orði eða hlutlausri mynd.

Eftir tilraunina voru hjónin aftur beðin um að leggja mat sitt á hjónabandið og tóku svo sama prófið og í upphafi. Þau endurtóku tilraunina og prófið heima fyrir á tveggja vikna fresti í samtals átta vikur og kláruðu síðasta prófið tveimur vikum eftir síðustu tilraunina.

Niðurstöðurnar sýndu að þeir sem voru í hópnum þar sem jákvæðum myndum var parað saman við mynd af makanum höfðu umtalsvert fleiri ómeðvitaðar jákvæðar tilfinningar í garð makans og voru ánægðari með hjónabandið í samanburði við hópinn þar sem hlutlausu myndefni var parað saman við mynd af makanum. Þetta átti við í gegnum alla rannsóknina, óháð því hversu ánægðir einstaklingarnir voru með maka sinn í upphafi rannsóknarinnar.

James McNulty, einn af höfundum rannsóknarinnar, var nokkuð hissa á niðurstöðunum.

„Bara hugmyndin um að eitthvað eins einfalt og ótengt hjúskap geti haft áhrif á það hvað fólki finnst um hjónabandið sitt fékk mig til að efast niðurstöðuna,“ sagði hann. „Ég var frekar hissa að þetta skyldi virka.“

Eldri rannsóknir benda þó til mikilvægi þess að læra inn á hegðun annarra og viðbrögð okkar gagnvart þeim, segir hann. Sem þýðir að hjón ættu líklega að huga betur að hegðun makans í hjónabandinu.

Annars er hætta á því að maður tengi sínar eigin neikvæðu skapsveiflur við makann, jafnvel þótt makinn komi þar hvergi við sögu. „Oft á tíðum er makinn hluti af ástæðunni fyrir því hvernig okkur líður, en það á ekki alltaf við. Hugur okkar getur samt sem áður blandað honum inn í málið,“ segir hann.

Hjónabandsráðgjafar ættu einnig að hafa þetta í huga, segir hann. Að vinna í atferlisbreytingum – eins og betri samskiptum og skapa fleiri sameiginleg áhugamál – gegnir vissulega mikilvægu hlutverki við að bæta hjónbandið, en í gegnum meðferðina þurfa hugrenningatengslin á milli makanna líka að vera jákvæðari, annars er hætt við því að meðferðin skili ekki eins miklum árangri.

Auðvitað geta öll hjón sem vilja halda hjónabandinu gangandi haft not af því að rækta jákvæðar tilfinningar í garð hvors annars. Það virðist vera vel þess virði að horfa á myndir af krúttlegum börnum og dýrum þegar makinn er nálægur fyrst að rannsóknin bendir til þess að það geti haft góð áhrif á það hvernig maður upplifir sitt eigið hjónaband.

„Ef maður vill upplifa meiri fyllingu í hjónabandinu þá eru leiðir sem varða makann nærtækastar og skilja skjótari árangri,“ segir McNulty. „Við ættum öll að reyna að kalla fram sem mest af jákvæðum tilfinningum og lágmarka þær neikvæðu þegar við erum með makanum.“

Þessi grein eftir Jill Suttie birtist fyrst þann 24. júlí 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.