Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri Facebook, segir frá því hvernig hún vann úr andláti eiginmannsins í bók sem hún gaf nýverið út.

Andlát maka er eitt mesta áfall sem nokkur getur orðið fyrir. Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri Facebook, þekkir þetta af eigin raun. Hún missti eiginmann sinn, Dave Goldberg, fyrir tveimur árum þegar hann varð fyrir alvarlegum heilaáverkum eftir fall á meðan þau voru í sumarfríi.

En með aðstoð fjölskyldu, vina og samstarfsfélaga – þ.á.m. Adams Grant, prófessor við Wharton skólann – lærði hún að takast á við yfirþyrmandi sorg og hefur meira að segja stigið fyrstu skrefin í átt að hamingju á ný.

Nú hefur hún skrifað bók – að hluta til endurminningar og að hluta til sjálfshjálparbók – þar sem hún lýsir vegferð sinni og deilir með lesendum því sem hefur hjálpað henni í gegnum raunirnar. Bókin heitir Option B: Facing Adversity, Building Resilience, and Finding Joy og er skrifuð í samstarfi við Adam Grant. Í bókinni er farið ofan í saumana á sorg og fundnar leiðir, sem eru byggðar á rannsóknum, til að takast á við áföll á heilbrigðan máta.

Höfundarnir ákváðu að nota aðeins rödd Sandbergs í bókinni og útkoman er hrífandi frásögn – full af heiðarleika, þjáningu, auðmýkt og von. Einlægni hennar er styrkleiki bókarinnar, gefur henni virðuleika sem yrði annars ekki endilega til staðar. Þótt líf Sandbergs virðist heillandi, þá er það samt alveg á hreinu að veröld hennar lék á reiðiskjálfi eftir fráfall mannsins hennar.

Eftir andlát hans fór hún að leita að innblæstri frá öðrum, hvernig aðrir komust yfir áfall sem þetta. Hún komst að því að batinn getur reynst erfiður ef maður fellur í gildru þriggja þátta sem tengjast þunglyndi: „sjálfsásökun – að trúa því að þetta sé manni sjálfum að kenna; gegnsýring – að trúa því að ákveðinn atburður muni hafa áhrif á allt sem viðkemur lífi manns; og varanleiki – að trúa því að eftirköst atburðarins muni vara að eilífu.“

Þessi viðbrögð eru algeng við fráfall ástvinar, en rannsóknir hafa sýnt að okkur farnast betur ef við forðumst þessa þætti. Sandberg varð að yfirstíga ótta sinn yfir því að verða aldrei hamingjusöm á ný og að hún hefði á einhvern hátt getað gert eitthvað til að koma í veg fyrir dauða Goldbergs.

Og hvernig gerir maður það? Sandberg segir frá nokkrum skrefum sem hún tók, þ.á.m. leitaði hún til góðra vina og deildi með þeim líðan sinni og hugsunum, í leit að tilfinningalegum stuðningi, innblæstri og von um bata. Hún lærði að horfast í augu við tilfinningar sínar í stað þess að streitast á móti, iðkaði þakklæti og notaði hugræna atferlismeðferð – dró í efa órökréttar hugsanir og tókst á við þær.

„Það rann upp fyrir mér að það er alveg sama hversu mikil depurðin getur orðið, eitthvað annað mun á endanum taka við,“ skrifaði hún. „Þannig endurheimti ég þá tilfinningu að ég hefði einhverja stjórn á eigin lífi.“

Hún fór líka að rækta með sér velvild í eigin garð – að sættast við þjáninguna, sleppa sjálfsásökunum og að sjá erfiðleika sem hluta af lífinu. Rannsóknir hafa sýnt að velvild í eigin garð hjálpar fólki að komast yfir mótlæti, m.a.s. mótlæti sem það hefur ómeðvitað kallað yfir sig. Í fyrstu var Sandberg ekki opin fyrir því að finna til samúðar með sjálfri sér en með tímanum fór hún að sjá það sem mikilvægt skref fram á við.

 

Sheryl Sandberg og maðurinn hennar, Dave Goldberg

„Velvild í eigin garð og samviskubit eru oft tvær hliðar á sama peningnum. Það þýðir ekki að maður sé að víkjast undan ábyrgð á fortíð sinni. Með því að sýna sjálfum sér velvild dregur það úr sjálfsniðurbroti sem annars gæti haft slæm áhrif á framtíð manns,“ skrifar hún.

Að halda dagbók getur líka hjálpað fólki að ná bata frá erfiðleikum og áföllum, sem og æfingar á borð við „Þrír góðir hlutir,“ þar sem jákvæðir hlutir sem gerðust yfir daginn eru skrifaðir niður. Sandberg fannst þetta hjálplegt og Grant hvatti hana til að skrifa um litlu hlutina sem hún afrekaði. Það eitt að skrá niður lítil skref eins og að fá sér tebolla hjálpaði henni að byggja upp sjálfstraust með tíð og tíma og gaf henni von um að hún gæti aftur náð eðlilegri virkni.

Ein helsta uppgötvun Sandbergs er sú að þjáningin ein tvöfaldi þjáninguna. Hún viðurkennir þó að það geti reynst erfitt að segja réttu orðin við einhvern sem er að þjást – hún rifjar upp nokkrar af hennar eigin hrikalega erfiðu tilraunum til að tjá samúð – en hún ráðleggur samt vinum og fjölskyldu að sættast við missinn. Að segja ekki neitt fær manneskjuna aðeins til að finnast hún vera enn einangraðari og meira einmana. Að vera á staðnum, spyrja spurninga og hlusta gefur fólki þá vissu að það geti reitt sig á þig.

Hún leitaði einnig huggunar í rannsóknum og þroskasögum í kjölfar áfalls. Með því að „finna sinn innri styrk, þakklæti yfir því sem maður hefur, mynda nánari tengsl við aðra, uppgötva dýpri tilgang með lífinu og sjá nýja möguleika,“ gefur reynslunni vægi, sem fyrir vikið hjálpar manni að ná bata, skrifar Sandberg. Aukið þakklæti yfir samböndum sem hún hafði tekið sem sjálfsögðum hlut og aukinn tilgangur með starfinu sínu hjálpaði henni hvað mest.

Það var alveg nógu erfitt fyrir hana að takast á við sína eigin sorg, en hún þurfti að finna leiðir til að hjálpa börnunum sínum líka. Hluti af því var að leyfa þeim að finna til, að rifja reglulega upp minningar um föður þeirra og skapa nýjar fjölskylduvenjur og áhugamál sem þau gátu gert saman og iðka þakklæti fyrir góðu hlutunum í lífi þeirra.

Líklega vegna viðbragða við fyrri bók Sandbergs, Lean In – sem sumir gagnrýndu fyrir að beina ekki meiri athygli að fátækt og stöðu einstæðra foreldra á vinnumarkaði – setti hún meiri fókus á ójöfnuð. Hún viðurkennir að hún sé heppin að þurfa ekki að takast á við fjármálaáhyggjur ofan á tilfinningapakkann í kjölfar makamissis og vitnar í tölfræði sem sýnir svart á hvítu hversu skelfileg staðan getur orðið fyrir þann sem býr við fátækt.

„Það rann upp fyrir mér að það er alveg sama hversu mikil depurðin getur orðið, eitthvað annað mun á endanum taka við. Þannig endurheimti ég þá tilfinningu að ég hefði einhverja stjórn á eigin lífi.“
―Sheryl Sandberg

Ég er viss um hún hafi meiri samúð með einstæðum foreldrum eftir reynslu sína, en mér fannst samt margir af þessum köflum vera ansi flatir. Ég er algjörlega á sama máli og hún þegar hún segir: „það er mikilvægt að útrýma launamun kynjanna og þá sérstaklega rétta hlut svartra kvenna“ til að hjálpa þeim að ná sér á strik eftir bakslag, en textinn orkaði á mig sem honum væri bætt við söguna um hennar eigin persónulegu vegferð til málamynda.

Heilt yfir fannst mér bókin auðlesin og hrífandi. Það er ánægjulegt að sjá að Sandberg hefur tekist vel að vinna úr sorginni og fundið einhverja lífsgleði á ný – hefur jafnvel farið á stefnumót. Og ég kann að meta ábendingar hennar um hvernig eigi að komast yfir áföll. Eins og hún sjálf segir: „Við tökumst öll á við missi: atvinnumissi, vinamissi, makamissi. Spurningin er ekki sú hvort þessir hlutir muni gerast. Þeir munu gerast og við verðum að horfast í augu við þá.“ Það er gott að hafa einhver tæki og tól við höndina þegar að því kemur.

Þessi grein eftir Jill Suttie birtist fyrst þann 4. ágúst 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.