Nú standa yfir rannsóknir á áhrifum þakklætis á andlega heilsu okkar.

Með auknu aðhaldi í heilbrigðiskerfinu, þar sem áherslan er lögð á betri nýtingu fjármagns og styttri umönnunartíma, hafa sérfræðingar á sviði geðheilbrigðismála staðið frammi fyrir áleitinni spurningu: Hvernig er hægt að hjálpa skjólstæðingum að fá sem mest út úr meðferð á sem skemmstum tíma?

Nýlegar niðurstöður rannsókna benda til þess að sálfræðiþjónusta með nokkrum viðbótum sem reyna ekki um of á skjólstæðinga skila góðum árangri. Við höfum í okkar eigin rannsóknum fundið út eina svoleiðis viðbót: ástundun þakklætis.

Niðurstöður margra rannsókna á síðastliðnum áratugum hafa einmitt sýnt fram á að fólk sem kann að meta það góða í lífi sínu er hamingjusamara og verður síður fyrir barðinu á þunglyndi.

Flestar rannsóknir á þakklæti hafa verið gerðar á háskólanemum eða öðrum starfhæfum hópum. Er þakklæti einnig hjálplegt þeim sem eiga við geðrænan vanda að stríða? Ef svo er, þá hvernig?

Við leituðumst eftir því að fá svör við þessum spurningum í nýlegri rannsókn með næstum 300 þátttakendum á fullorðinsaldri, að mestu háskólanemar sem sóttu um sálfræðiráðgjöf við skólann. Við fengum nemana til liðs við okkur áður en þeir fóru í fyrsta sálfræðitímann. Nemarnir greindu að mestu leyti frá slæmri andlegri líðan. Meirihluti þeirra sem voru í ráðgjöf við háskólann voru að takast á við þunglyndi og kvíða.

Við röðuðum þátttakendunum af handahófi í þrjá hópa. Allir hóparnir fengu sálfræðiþjónustu. Fyrsti hópurinn skrifaði einhverjum þakklætisbréf einu sinni í viku yfir þriggja vikna tímabil. Annar hópurinn skrifaði niður sínar dýpstu hugsanir og tilfinningar um einhverjar neikvæðar upplifanir. Þriðji hópurinn skrifaði ekki neitt.

Og hvað út úr þessu? Þeir sem skrifuðu þakklætisbréfin greindu frá umtalsvert betri andlegri líðan bæði fjórum vikum og tólf vikum eftir bréfaskriftirnar í samanburði við hina tvo hópana. Þetta bendir til þess að skriflegt þakklæti geti ekki bara haft jákvæð áhrif á heilbrigða einstaklinga í góðu jafnvægi, heldur líka á þá sem eiga við sálræn vandamál að stríða. Það virðist sem ástundun þakklætis ásamt sálfræðiráðgjöf gagnist enn betur en eingöngu sálfræðimeðferð, jafnvel þótt ástundunin sé lítil.

Þegar við rýndum betur í niðurstöðurnar fundum við vísbendingar um hvernig þakklæti getur verkað á huga og líkama. Hér eru fjögur atriði úr rannsóknum okkar sem gefa vísbendingar um hvað liggi að baki sálrænum áhrifum þakklætis.

1. Þakklæti frelsar okkur undan eitruðum tilfinningum

Við byrjuðum á því að sundurliða orðin sem þátttakendurnir notuðu í báðum rithópunum og gátum þannig fundið út þættina sem lágu að baki betri andlegri líðan við að skrifa þakklætisbréf. Við bárum saman hlutföll jákvæðra orða og neikvæðra orða sem höfðu með tilfinningar að gera og notkun á persónufornafninu „við“. Það kom okkur ekki á óvart að hópurinn sem skrifaði þakklætisbréfin var með hærra hlutfall af jákvæðum tilfinningaorðum og orðinu „við“, og lægra hlutfall af neikvæðum tilfinningum í samanburði við hinn rithópinn.

Þeir sem notuðu meira af persónufornafninu „við“ og jákvæðum orðum til að lýsa tilfinningum fundu ekki endilega til betri andlegrar líðanar seinna meir. Það var aðeins þegar fólk skrifaði færri neikvæð orð til að lýsa tilfinningum sínum sem líkurnar urðu umtalsvert betri. Það var því skortur á neikvæðum orðum – ekki fjöldi jákvæðra orða – sem útskýrði muninn á líðan milli rithópanna tveggja.

Þetta gæti verið vísbending um að skriflegt þakklæti leiði til betri andlegrar heilsu með því að draga athyglina frá eitruðum tilfinningum á borð við gremju og öfund. Það getur orðið töluvert erfiðara að velta sér upp úr neikvæðum upplifunum ef maður stundar það að skrifa niður þakklætið sem maður finnur til fólksins í kringum mann.

2. Þakklæti hjálpar líka þótt þú deilir því ekki með öðrum

Þátttakendurnir sem skrifuðu þakklætisbréfin fengu að vita að þeir þyrftu ekki að senda bréfin á viðkomandi. Aðeins 23% þeirra sendu bréfin. En þeir sem gerðu það ekki uppskáru samt sem áður jákvæðu áhrifin. Hópurinn sem sendi bréfin var of lítill og því erfitt að leggja mat á það hvort andleg líðan þessa hóps var betri en hjá þeim sem sendu ekki bréfin.

Þetta bendir til þess að jákvæðu áhrifin sem hljótast af því að skrifa einhverjum þakklætisbréf hangir ekki endilega á því að koma þeim skilaboðum áleiðis til þess sem bréfið er stílað á.

Þannig að ef þú ert að hugleiða að skrifa einhverjum bréf og sýna þakklæti þitt en ert óviss um hvort þú viljir senda bréfið frá þér, þá ráðleggjum við þér eindregið að byrja að skrifa hvort sem þú munt gera það eða ekki. Þú getur tekið ákvörðun um það seinna (og okkur finnst það vera góð hugmynd). Það eitt að skrifa bréf getur hjálpað þér að kunna að meta fólkið í kringum þig og stýrt þér frá neikvæðum tilfinningum og hugsunum.

3. Áhrif þakklætis taka tíma

Það er mikilvægt að taka fram að heilsufarsleg áhrif þess að skrifa þakklætisvott til einhvers kom ekki strax fram í rannsóknum okkar. Þótt munur á andlegri líðan milli hópanna þriggja hafi ekki verið til staðar viku eftir síðustu bréfaskriftirnar, þá fór hópurinn sem skrifaði bréfin að greina frá betri andlegri líðan en hinir tveir hóparnir að fjórum vikum liðnum og munurinn varð enn meiri að tólf vikum liðnum.

Niðurstöðurnar lofa góðu því að margar aðrar rannsóknir hafa gefið til kynna að góðu áhrifin sem jákvæðar venjur hafa á andlega líðan minnka með tímanum eftir að rannsóknum lýkur. Við vitum ekki hvers vegna jákvæðu áhrifin jukust með tímanum í okkar rannsókn. Kannski deildu þátttakendurnir innihaldi bréfanna með sálfræðingnum eða einhverjum öðrum. Þannig samtöl geta mögulega styrkt sálrænu áhrifin í sessi.

Það sem við vitum að svo stöddu er að ef þú prófar að skrifa þakklætisorð til nokkurra aðila að þá máttu búast við því að áhrifin komi fram seinna meir. Sýndu þolinmæði og mundu að áhrifin koma þegar fram líða stundir.

4. Þakklæti hefur langvarandi áhrif á heilann

Þremur mánuðum eftir að sálfræðimeðferðin byrjaði bárum við saman nokkra einstaklinga sem höfðu skrifað þakklætisbréfin við þá sem höfðu ekki skrifað neitt. Vil vildum komast á því hvort heilar þeirra tækju á móti skilaboðum með mismunandi hætti.

Við notuðum starfræna segulómun (fMRI) til að mæla virkni heilans á meðan einstaklingar úr sitthvorum hópnum tóku þátt í verkefni sem gekk út á að „láta það ganga“. Einstaklingarnir fengu reglulega litla peningaupphæð frá einhverjum ókunnugum sem kallaðist „velgjörðarmaður“. Þessi velgjörðarmaður bað þátttakendurna um að gefa peninginn áfram, en aðeins ef þeir fyndu fyrir þakklæti. Þátttakendurnir fengu síðan að ráða hversu mikið af upphæðinni átti að renna í gott málefni.

Okkur langaði til að kanna greinarmuninn á framlagi sem var annars vegar gert í þakklæti og hins vegar gert af öðrum hvötum líkt og samviskubiti eða skyldurækni. Við báðum því þátttakendurna um að meta hversu þakklátir þeir voru í garð velgjörðarmannsins og hversu mikið þá langaði til að gefa peningana áfram í gott málefni, ásamt því að meta hversu mikið samviskubit þeir myndu finna fyrir ef þeir gæfu peningana ekki áfram. Við fengum þátttakendurna líka til að svara spurningalista svo við gætum lagt mat okkur á það hversu þakklátir þeir almennt voru í sínu lífi.

Við fundum út að heilavirkni þeirra sem upplifðu þakklæti var öðruvísi en þeirra sem tengdist samviskubiti og löngun til að styrkja gott málefni. Það kom fram meiri virkni í framheilaberki þeirra sem voru almennt þakklátari, svæði heilans sem tengist þekkingaröflun og ákvarðanatöku. Þetta bendir til þess að fólk sem er þakklátara veitir því meiri athygli hvernig það tjáir þakklæti sitt.

Þeir sem skrifuðu þakklætisbréfin voru með meiri virkni í framheilaberkinum þegar þeir upplifðu þakklæti í samanburði við hina samkvæmt fMRI skönnun. Þessar niðurstöður eru sláandi því áhrifin komu fram þremur mánuðum eftir að fyrsta bréfið var skrifað. Þetta er vísbending um að tjáning á þakklæti geti haft langtímaáhrif á heilann. Það er ekki hægt að slá því föstu en niðurstöðurnar benda til þess að ástundun þakklætis geti þjálfað upp næmni heilans fyrir upplifun á þakklæti og að vonandi getur þetta orðið einn þáttur í átt að betri andlegri heilsu.

Þótt þetta séu aðeins fyrstu skrefin í því sem ætti að vera lengra rannsóknarferli, þá hafa okkar rannsóknir bent til þess að þakklætisskrif séu ekki bara hjálpleg þeim sem sækja sér sálfræðiþjónustu heldur geti þau líka útskýrt hvað sé að baki jákvæðum sálrænum áhrifum þakklætis. Við vonum að þessar rannsóknir geti gagnast sérfræðingum á sviði geðheilsu – og skjólstæðingum þeirra.

Við hvetjum þig eindregið til að prófa að skrifa þakklætisbréf, burtséð frá því hvort þú eigir við erfið sálræn vandamál að etja. Við eyðum miklum tíma og orku í að sækjast eftir því sem að okkur vantar eða langar í. Þakklæti snýr forgangsröðun okkar við og hjálpar okkur að kunna að meta fólkið í kringum okkur og það sem við erum nú þegar með í höndunum.

Þessi grein eftir Joel Wong og Joshua Brown birtist fyrst þann 6. júní 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.