Vertu opin fyrir öllum þeim tilfinningum sem þú upplifir á leið þinni að betri vellíðan, segir James Baraz.

Í samkeppnismiðuðu umhverfi er ríkjandi hugarfar oft að meira sé betra. Að skara fram úr, hvað sem það kostar, og að eiga sem mest hefur skotið sterkum rótum í þjóðarsálinni sem mælikvarði á raunverulegan árangur. Sú hugmynd að stefna að hámarkinu er oft ranglega tengd við vellíðan. Margir halda að gleðivíman sem þeir upplifa sé vísbending um að leiðir þeirra til að finna hamingjuna séu að skila sér.

En það er eitt grundvallaratriði sem við förum á mis við í leit okkar að raunverulegri hamingju: Of háleitar hugmyndir um hamingjuna vinna gegn raunverulegri vellíðan.

Ég hef ekkert á móti því að njóta hápunkta tilverunnar þegar þeir koma upp á, en ef maður ætlar að bera þá saman við hversdagsleikann þegar allt gengur sinn vanagang þá getur manni fundist eins og að það vanti eitthvað upp á.

Við komum auga á það sem við horfum eftir. Vísindin kalla þetta fyrirbæri staðfestingarskekkju heilans. Heilinn hefur tilhneigingu til að meðtaka það sem við teljum vera rétt og sleppir því sem passar ekki ríkjandi skoðunum okkar. Ef þér finnst þú ekki vera að upplifa mikla hamingju vegna þess að þér finnst að hún eigi að snúast um sæluvímu og ofsagleði, þá munt þú líklega halda áfram að staðfesta þá skoðun.
Hvað annað er í boði? Reyndu að taka eftir því hvernig þér líður í raun og veru á því augnabliki – og vertu opin fyrir öllum þeim tilfinningum sem þú finnur fyrir.

Vísindin á bak við tilfinningafjölbreytni

Það eru til rannsóknir sem sýna það að leggja of mikið kapp á að finna hamingjuna getur verið skaðlegt fyrir andlega og líkamlega heilsu. Fólk sem býr yfir fjölbreyttri „tilfinningaflóru“ – sem þýðir að það upplifir allan skalann, þ.á.m. reiði, áhyggjur og sorg – er heilbrigðara heldur en þeir sem einskorða sig við þrengri skala jákvæðra tilfinninga.

Rannsókn með yfir 35 þúsund þátttakendum sýndi fram á að „fólk með fjölbreytta tilfinningaflóru upplifði síður þunglyndi heldur en fólk sem upplifði helst eingöngu jákvæðar tilfinningar.“ Önnur rannsókn með 1300 þátttakendum frá Belgíu leiddi í ljós að þeir sem voru með fjölbreyttari tilfinningaflóru tóku inn minna af lyfjum, fóru síður til læknis, stunduðu frekar íþróttir, borðuðu betur og voru heilt yfir heilsuhraustari en þeir sem upplifðu tilfinningar á þrengri skala.

Of mikil hamingja getur líka haft áhrif á sköpunarkraftinn. Mark Alan Davis komst að því, í rannsókn sinni á skapgerð og sköpunargleði, að við erum ekki eins skapandi í öfgakenndu hamingjuástandi. Við getum jafnvel orðið manísk og misst öll tengsl við sköpunargáfuna. Maður þarf ekki að upplifa dramatískar tilfinningar til að vera skapandi. Hamingjusamt fólk er líka skapandi. En að bíða eftir því að andinn komi yfir mann getur unnið á móti manni.

Önnur rannsókn leiddi í ljós að þeir sem eru oft á tíðum hátt uppi eiga oft erfiðara með að aðlagast krefjandi aðstæðum. Það verður erfiðara að laga sig að breyttum aðstæðum þegar hlutir fara úrskeiðis. Að auki eru þeir sem eru í sífelldri leit að jákvæðum upplifunum líklegri til að leita í hluti á borð við áhættusamt kynlíf og vímuefni. Tengslin á milli öfgakenndrar hamingju og áhættuhegðunar var einnig staðfest í rannsókn frá árinu 1993. Börn sem voru talin „ofurkát“ voru með hærri dánartíðni á fullorðinsaldri vegna áhættuhegðunar.

Við getum svo sannarlega ýtt undir hið gagnstæða ef við reynum of mikið til að vera hamingjusöm. Iris Mauss og samstarfsfólk hennar hafa bent á í rannsóknum sínum að fólk gerir oft óraunhæfar kröfur í eigin garð í leit sinni að hamingju, sem getur á endanum leitt til sárra vonbrigða. Þetta getur orðið að vítahring, Því meira sem lagt er á sig, þeim mun erfiðara virðist vera að fanga hamingjuna.

Kannski er þá betra að reyna ekki svona mikið að vera hamingjusamur.

Það er í fínu lagi að vera í fínu lagi

Fólk sem tekur þátt í námskeiðinu mín, Awakening Joy, hefur oft sínar hugmyndir um hvað gleði sé. Ég heyri oft hugleiðingar á borð við: „Ég reyni hvað ég get til að vera glöð en það virkar ekki.“ Eins og vísindin gefa í skyn, þá kemur það ekki á óvart. Í staðinn mæli ég með því að taka einfaldlega eftir þessum stundum þar sem allt er í fína lagi. Ef líf þitt er uppfullt af drama, þá mæli ég oft með því að vera vakandi fyrir stundunum þegar þér líður ekki illa. Það er góð byrjun.

Ef þú finnur þessar stundir þar sem allt er í „fína lagi“ – þegar þér líður ekki illa – og lærir að meta þær, þá opnarðu gáttina að raunverulegri vellíðan. Því meiri gaum sem þú gefur þessum stundum og leyfir þér að taka þær inn, því djúpstæðari vellíðun muntu upplifa – ekki með áreynslu, heldur forsjálli eftirtekt. Eins og Rick Hanson, sérfræðingur í taugavísindum, segir: „Heilinn virkar eins og teflon fyrir jákvæðar upplifanir og lím fyrir þær neikvæðu.“ Við þurfum að læra að meta og taka inn þessar einföldu stundir lífsins þegar hlutirnir eru í fínu lagi.

Awakening Joy er alþjóðlega viðurkennt námskeið sem stendur yfir í fimm mánuði og er tekið á netinu eða á staðnum í Berkeley í Kaliforníu. Meira en 15 þúsund manns frá 30 löndum hafa tekið námskeiðið sem er kennt af James Baraz. Á námskeiðinu er boðið upp á aðferðir og æfingar sem þoka huganum áleiðis að meiri vellíðun.

Þú getur fundið gleði við eðlilegustu aðstæður ef þú hættir að leita leiða til að upplifa gleðistundir. Edith, háskólanemi í Þýskalandi, taldi sér trú um að gleði og sterkar jákvæðar tilfinningar væri það sama. En eftir að hún hætti að leita að þessum stundum fór hún einfaldlega að upplifa vellíðun við eðlilegar aðstæður og byrjaði að sjá hlutina í allt öðru ljósi:

„Ég tók eftir því að það var fullt af gleði nú þegar til staðar og að ég hafði verið að leita að einhverri „andlegri“ gleði ofar hversdagsleikanum. Einhverju dýpra og varanlegra heldur en venjulegri gleði, einhverju sem ég gæti aðeins náð með réttum aðferðum ef ég legði hart að mér. Þessi „venjulega gleði“ fór margoft framhjá mér út af mínum hugmyndum og ég var of upptekin í leit minni að annars konar gleði. Ég fór að einbeita mér að þessum hversdagslegu stundum, fór að kunna að meta þær og byrjaði að finna meira fyrir þeim. Ég fann til svo mikillar hamingju og blessunar yfir lífi mínu að stundum varð ég gagntekin af gleði.“

Ég minnist þess að hafa heyrt vitran kennara lýsa hugleiðslu um góðvild og kærleika sem tengdist hjartastöðinni. Hann sagði að orðin „góðvild“ og „kærleikur“ geti virst utan seilingar vegna þess að þau hljóma stundum svo háfleyg og göfug. Hann mælti með því að tengjast þessum einföldu tilfinningum, „góðvild“ og „vinsemd“, og beina þeim að manni sjálfum eða öðrum. Það er auðskilinn leið og hún setur af stað flæði hlýrra tilfinninga. Þetta virkaði. Smám saman sleppti ég tökunum á því að þetta væri eitthvað sem að ég þyrfti að gera og í staðinn fór ég einfaldlega að njóta þess að finna góðvildina stigmagnast og leyfa henni að snerta hjarta mitt.

Í Austrænni heimspeki er litið á göfuga góðvild sem sjálfbærara og meira fullnægjandi ástand. Það er litið á sæluvíma, eins æðisleg og hún getur verið, sem lægra stig hamingju, sem verður eftir smá tíma að suði fyrir utan sjálft hamingjuástandið. Því göfugra ástand sem maður kemst í, því meira finnst manni gleði, hamingja og sátt vera lífsgæði sem eru þróaðri og meira fullnægjandi. Á endanum er djúpstæður friður mest fullnægjandi ástandið og það er talið vera forveri raunverulegrar uppljómunar.

Ef þú ert að reyna að rækta með þér raunverulega hamingju, þá er ef til vill gott að hætta að leita að einhverju sem kallar fram þess lags tilfinningar. Meðvituð gleði kviknar innra með manni þegar maður fer raunverulega að meta einföldu stundirnar í lífinu sem veita manni vellíðan. Ekki láta þær framhjá þér fara! Lífið er stútfullt af þessum stundum þegar þú hefur opnað huga þinn fyrir þeim.

Þessi grein eftir James Baraz birtist fyrst þann 17. janúar 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.