Ég mætti aftur í vinnu eftir alveg hrikalega gott jólafrí. Satt best að segja var þetta eiginlega of gott jólafrí. Eftir geðsjúklegt stress í desember gat ég eiginlega ekkert gert nema legið í sófanum og dormað á milli þess sem ég raðaði súkkulaðimolum eins og tetris kubbum upp í mig. Þetta var alger slökun og algerlega það sem mig vantaði .Ég núllstillti alveg. Jólin voru yndisleg, og áramótin hrikalega skemmtileg þar sem við fórum í nett partý til Coventry.

Ég er samt að díla við mikla togstreitu núna. Ég nefnilega þyngdist all svaðalega á þessu tímabili, fyrst í stressinu í desemberbyrjun og svo í slökuninni í desemberlok. Og hreyfði mig ekki rassgat allan mánuðinn. Það hefur skilað sér í aunum hnjám, töpuðu þreki og 102 kílóum. Semsagt aftur yfir hundrað sem átti enn einu sinni að vera algert nó nó. Ég er þessvegna alveg í mínus yfir þessari gengdarlausu spiksöfnun en á sama tíma hefði ég ekki breytt einni mínút af fríinu. Ó fokk it. Það þýðir ekkert að grenja um þetta.

Í stað þess að grenja fór ég í ræktina fyrir helgi og fann mér einkaþjálfara. Ætla að hitta Paddy núna vikulega næstu þrjá mánuðina svona alla vega. Hann ætlar að hjálpa mér aftur inn á beinu og breiðu og setja smá stefnu í þetta hjá mér. Við ætlum að einbeita okkur að lyftingum og að koma bakinu í betra lag. Hann er með prógram sem miðar að ná persónu meti á mánaðarfresti sem hentar mér mjög vel. Ég þarf nefnilega að taka smá fókus af vigtinni. Þegar ég fattaði að ég var orðin 102 kg féllust mér nefnilega hendur. Og í stað þess að fíleflast og þruma þessu af mér varð ég bara leið og niðurdregin og kláraði Mackintoss dósina. Og keypti svo meira súkkulaði.

Já, ég er stefnulaus og ringluð akkúrat núna og vantar hjálp. Ég þarf á þjálfaranum að halda og ég þarf á stuðningi frá vinum. Sem betur fer fékk ég þessa litlu fartölvu í jólagjöf og get núna farið að skrifa almennilega aftur. Það er bara allt annað líf að hafa lyklaborð!

Nýja árið byrjað því svona hálf álappa-og silalega. Kominn áttundi janúar og ég enn bara búin að hugsa um stefnu, en hef ekkert enn gert í málunum. Ég er hinsvegar ákveðin í að láta ekkert ná mér niður, ekki einu sinni að fara aftur yfir hundrað. Ég ætla að vera þakklát, auðmjúk og hugrökk. Það er það sem ég ætla að gera.

 

Þessi færsla birtist fyrst hér þann 8 janúar 2017

http://salvelinus.blogspot.is/2017/01/af-marglyttum.html