
Það eina sem mig hefur alltaf langað er vera venjuleg. Mig langaði svo til að geta bara fengið mér að borða án þess að “líða” einhvernvegin með það. Að það að borða væri bara það; matur í munn, orka í kropp, búið bing bing bing bong. En allur tíminn sem ég hef eytt í að setja orthorexiu reglur hafa kannski skilað árangri á vigtinni en venjulega markmiðið fjarlægðist stöðugt. Ég held að núna þegar ég er búin að fjarlægja allar reglur sé eins og þetta markmið sé í sjónmáli. Ég þarf stanslaust að minna mig á hvað ég er að reyna að gera. Minna mig á að athuga hvort ég sé svöng, spurja sjálfa mig hvað ég er að reyna að fylla þegar ég borða þegar ég er ekki svöng og vinnan sem fer í að fyrirgefa sjálfri mér þegar ég borða er gífurleg. En þetta er allt að koma.
Ég ristaði brauð í morgunmat. Tvær brauðsneiðar, af því að það er pláss fyrir tvær sneiðar í vélinni og það er asnalegt að gera bara eina. Setti marmelaði og ost á sneiðarnar, hellti upp á kaffi og settist við eldhúsborðið til að borða. Borðaði hægt og róleg og naut hvers bita. Þegar ég var byrjuð á seinni sneiðinni datt mér allt í einu í hug að það að rista tvær sneiðar væri kannski bara eitthvað sem fitubollur gera. Kannski finnst mjóu fólki í lagi að hafa eitt ristiplássið autt? Hvað ef ég rista alltaf tvær og borða svo tvær bara af því að brauðið er núna fyrir framan mig? Ég byrja að þreifa fyrir mér í smá panikki til að tjékka hvort ég sé enn svöng. Jú, tvær sneiðar virðast vera rétta magnið en hvað ef ég ætti bara að gera eina sneið fyrst og svo aðra ef ég væri enn svöng? Hvað gerir mjótt fólk??? Spáir það í þessu???? Ég reyni að róa mig niður, slakaðu á segi ég við sjálfa mig. Njóttu sneiðarinnar, manst að þú er sátt, þú veist hvað þú ert að gera.
Jú, þetta er allt að koma en samt. Það er erfitt að stanslaust þurfa að spá svona í þessu. Ég horfi á myndina af sjálfri mér og hugsa með mér að þetta allt, þessi vinna hlýtur að vera þess virði fyrir að smá saman líða betur, og að lokum vera sátt við mig eins og ég er núna.
Þessi færsla birtist fyrst hér þann 6. nóvember 2016