Ég var nokkuð viss um að þessi tala, 71 kíló, sem ég sé alltaf fyrir mér sem einhverja gullna tölu, hefði verið dregin úr tómu lofti. Að ég hefði bara hugsað hana upp. En svo um daginn var ég eitthvað að skoða lista sem sýna hvað maður ´á´ að vera þungur og það kemur í ljós að 71 kíló er það sem aðskilur konu af minni hæð og byggingu frá því að vera venjuleg og að vera í yfirþyngd. Ég sver að ég man ekki eftir að hafa séð þennan lista áður, en ég trúi eiginlega heldur ekki að ég hafi haft svona guðlega forsjá að hugsa upp þessa tölu.
Eftir nokkrar umræður við Ástu mína um lífsmarkmið, bæði lang-og skammvinn, hef ég að undanförnu verið að hugsa þetta betur, hversu mikilvægt það er fyrir mig að ná þessu markmiði. Eða hvort ég eigi frekar að setja mér önnur og skemmtilegri markmið eins og til dæmis að geta gert upphífingar. Það er sko hitt svona lífslangtímamarkmiðið mitt og satt best að segja finnst mér meira í það varið en einhverja tölu dregna úr rassgatinu á manni. Þegar maður hugsar það þá er svo ljóðrænt að geta híft sjálfan sig upp. Það sýnir bæði í myndlíkingu og í alvörunni að maður getur borið eigin þyngd. Að maður standi undir sjálfum sér. Það er nú ekkert smávægilegt.
Þegar að svona stórum hlutum kemur þarf að hafa frammistöðumarkmið. Þannig er ekki nóg að langa til að gera eitthvað, það þarf að setja niður hvað maður ætlar að gera til að ná markmiðinu. Til að geta híft sig upp þarf maður að stunda líkamsrækt af staðfestu og maður þarf að létta sig. Það gerir maður svo með að mæta fjórum sinnum í viku í ræktina og borða innan hitaeiningamarka. Það gerir maður svo með því að skipuleggja tíma sinn þannig að ræktargallinn sé tilbúinn á morgnana og matseðiillinn skipulagður. Það gerir maður svo með þvi að leggja smá tíma á hverjum degi í að framkvæma. Það er fínt og dandý að segjast ætla að léttast um 50 kíló og geta híft sig upp, en er búið að plana daglegu verkefnin sem þarf að takast á við til að markmiðin verði að raunveruleika?
Svona var þetta þegar ég byrjaði að hlaupa. Ég hefði aldrei trúað því að það væri eitthvað sem ég gæti gert. Og í hvert skipti sem ég reimdi á mig skóna og lagði af stað fylltist ég af vantrúartifinningu um að þetta væri í alvörunni ég sem væri hlaupandi. En ég lagði á mig vinnuna, ég tók öllu litlu daglegu skrefin sem eru nauðsynleg til að ná stærra markmiðinu og innan skamms hafði ég tekið þátt í 10 km hlaupi. Engin ástæða til að halda að ég geti ekki gert slíkt hið sama með upphífingar.
Þessi færsla birtist fyrst hér þann 15. mars 2016