Þegar ég var 17 ára eða svo fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Svo sem ekki í frásögur færandi nema kannski til að segja að það voru sennilega ein af stærri mistökum sem ég hef nokkurn tíman gert og að það var þar sem ég skemmdi á mér hnén. Ég var í stærri kantinum þegar ég lagði af stað og það bætti svo ekki úr skák að ég endaði í Leroy, Michigan, þar sem ég hafði lítið annað fyrir stafni en að éta. Og hafði lítið fyrir að bæta á mig um 30 kílóum á rúmum 7 mánuðum. Ekkert mál. Eitt af því fáa sem ég þó gerði var að á miðvikudagskvöldum fór ´systir´ mín á kúrekabar í nærliggjandi bæ og dansaði square dance. Yee fucking haw. Allavega, ég fór með af því að það var bara ekki neitt annað að gera. Og það var þar, í miðjum keðjudansi þar sem eitthvað þoldi ekki þungann og álagið og liðþófi ákvað að gefa sig. Ég man ég snarstoppaði og leit í kringum mig af því ég hélt í alvörunnin að einhver hafði sparkað í mig. Eftir þetta átti ég sí erfiðara með gang. Kom heim með fragtflugi með niðurlút og ónýtt hné. Það liðu svo tvö ár þangað til ég fór í uppskurð og liðþófakurlið var allt tekið. Stuttu síðar sprakk hitt hnéð og ég fór í seinni aðgerð. Mér leið betur eftir það. Áður kom það oft fyrir að hnén misgengu þannig að ég bólgnaði svo upp að ég gat ekki gengið í nokkra daga, var bara lömuð. Það hætti allavega. En sársaukinn sem ég er búin að lifa með síðan er eiginlega ólýsanlegur. Og sljákkar bara við að léttast. Ekki alveg en því léttari sem ég er því minni verkur.
