Ég byrjaði í gær á fjögurra vikna lyftinganámskeiði. Næstu fjóra laugardaga hitti ég sérfræðing í lyftingum sem ætlar að fara yfir allt sem þungum lyftingum kemur, upphitun, næringu, formi og uppbyggingu sett, líffræði og hvað annað sem þarf að vita til að geta lyft þungu svo rétt sé og þannig að gagn sé að. Ég hef náttúrulega verið að lyfta í nokkurn tíma og veit eitt og annað en ég hef aldrei haft neinn sem getur sýnt mér nákvæmlega hvernig á að gera þetta og getur leiðrétt og kommentað á formið mitt. Mig vantar líka að fá smá sjálfstraust. Ef það er eitthvað sem er ógnvekjandi þá er það að labba inn í nýja rækt og að lóðasvæðinu og byrja að lyfta. Það er eitthvað sem ég get ekki gert án þess að vera búin að skoða svæðið vel og vandlega, finna út hvar allt er og hvernig allt virkar, finna út hvenær er minnst af öðru fólki og hver etikettan er hvað notkun lóða varðar. Um leið og allt þetta er komið er ég fljót að byrja að haga mér eins og ég sé heima hjá mér og get byrjað að rymja í testesterónfylltu gleðikasti.

Þessi færsla birtist fyrst hér þann 7. febrúar 2016
http://salvelinus.blogspot.is/2016/02/af-astriufullu-folki.html