Ég lagði af stað í rækt klukkan fimm þrjátíu í morgun, hjólaði galvösk í gegnum velska rigningu til að hitta á Paddy klukkan sex. Tíminn með honum var svo betri en ég þorði að vona. Hann hafði ekki sent mér prógrammið mest megnis vegna þess að hann vildi fara í gegnum það með mér. Sýna mér allar hreyfingarnar og passa að ekkert væri of mikið fyrir bak og hné. Svo var hann líka með vitlaust netfang. Allt fyrirgefið og ég hlakka núna bara til að vinna með honum.

Hann vill að ég haldi líka út matardagbók. Ég ætlaði fyrst um sinn að malda í móinn. Hvað gæti hann, þvengmjór drengstaulinn sagt mér til um mataræði? Það er EKKERT sem ég veit ekki um hvernig á að borða mat í aðhaldi! En svo mundi ég að mottóið í ár er auðmýkt. Ég er að reyna að hætta að vera svona hrikalega hrokafull. Þannig að ég ætla samviskusamlega að hripa allt niður fyrir hann og sjá hvað hann segir.  Ég hef reyndar haldið úti myndamatardagbók með vinkonu minni á FB um nokkurt skeið en kannski verður áhugavert að heyra hvað 25 ára strákpjakkur segir um matinn minn?

Kjúklingaleftovers með grænmeti

 

Túnfisksalat, nachos og skyr

 

Banani og 20 g af hnetusmjöri

 

Yfirnáttúrulegir hafrar með rúsínum, kanil og grískri jógurt

Þessi færsla birtist fyrst hér þann 16 janúar 2017

http://salvelinus.blogspot.is/2017/01/af-aumykt.html