Þegar ég vaknaði í morgun eygði ég vigtina mína með fjandsamlegum svip. Þrátt fyrir að hafa bara borðað eins og flest eðlilegt fólk alla helgina þá drakk ég tvímælalaust meira áfengi en eðlilegt fólk (eða meira áfengi en eðlilegt fólk ætti að drekka) og eins og alþjóð veit er fátt hitaeiningaríkara en áfengi. Mér hafði nú svosem líka áskotnast örlítið af lakkrís og át góðan hluta hans á mánudagskvöld. Allt svona til þess fallið til að tryggja “nei hvur andskotinn!” viðbrögð á vigtinni. Ég hugðist þvi bara sleppa því að stíga á hana. En svo varð forvitnin fjandanum yfirsterkari og ég sté á tækið. Og fattaði að mér hefur tekist að breyta sambandi mínu við vigtina mína. Í fyrstu var ég háð vigtinni til að sjá kílóin fjúka. Mig vantaði að fá að sjá töluna breytast til að fá staðfestingu á að ég væri að gera rétt. Það er erfitt að nota fatnað til að mæla mun á tveggja eða þriggja kílóa tapi þegar maður er 130 kíló. Það sér ekki högg á vatni. En svo fór vigtin að vera mér fjötur um fót, hún fór að stjórna þessu öllu hjá mér; ég var brjáluð ef ég léttist ekki, ofurkát ef eitthvað fór. Og ég lét hana segja mér til um hvort dagurinn yrði góður dagur eða slæmur. Ég prófaði þá í þó nokkuð langan tíma að sleppa vigtinni og notaði aðrar aðferðir til að mæla árangur. Og sá tími var góður að því leytinu til að mér tókst að setja ákveðinn forvara við það sem vigtin sagði. En svo fannst mér aftur vera tími á að vigta mig. Ég saknaði rútínunnar og ég saknaði kunnugleikans. Og aftur fór ég að láta hana segja mér hvort ég væri glöð eða reið og pirruð. En að undanförnu hef ég tekið eftir að ég er hætt pirringnum. Ég vigta mig á hverjum degi, en ég er hætt að spá í töluna sjálfa. Ég nota vigtina meira til að skilja líkama minn, hvernig hann bregst við salti, við vatnsdrykkju, við svefni, við líkamsrækt og ýmsum fleirum þáttum. Í stað þess að einblína skelfingu lostin á TÖLUNA er ég farin að sjá dagleg flóð og fjöru líkamans og ég get betur stjórnað sjálf hvað ég geri. Þegar maður sér að það er hægt að þyngjast og léttast um fjögur kíló yfir daginn (já ég sagði fjögur kíló) þá skilur maður skyndilega betur hvað lokatalan, lokatakmarkið er hjákátleg. Og þá er ekkert mál að gera almennt hreysti og vellíðan að lokatakmarkinu.
Þessi færsla birtist hér þann 7. september 2011