Nú fer Heilsunetið í jólafrí og í tilefni af því smelltum við í þessa hugrenningu um frí, almennt og svolítið um okkar eigin eftirminnileg “öðruvísi” frí. Margir nota fríið sitt til að sækja námskeið hérlendis og erlendis. Fjölmargir njóta kyrrðarstunda/kyrrðarhelga og finna mismunandi leiðir til að slaka á og “aftengja” sig. Margvísleg skemmtileg námskeið eru í boði og oftar en ekki heilla slík þar sem áhersla á aukna andlega vitund er í forgrunni sem og núvitund. Það eru auðvitað endalust margar leiðir til að nýta fríið sitt og margir njóta þess njóta þess að stoppa og gera ekki neitt. Einhverjir hvíla best með því að stunda hreyfingu af ýmsu tagi og hreinsa þannig líka hugann. Enn aðrir fara kannski á heilsuhæli eða í “spa”, sumir fara upp í bústað og hlaða batteríin, lesa góða bók og einhverjir slökkva bara á símanum og njóta þess að vera. Þau okkar sem hafa prófað að “fljóta”, að láta sig líða um í hlýrri sundlaug, jafnvel með hina frábæru íslensku flothettu sér til stuðnings, vita fátt betra til að ná djúpri slökun. Og ekki amaleg jólagjöf, flothettan, ef einhver á enn eftir finna eitthvað til að setja undir jólatréð, og svo er hún tilvalin gjöf handa okkur sjálfum líka. Dásamleg.
Sú sem þetta ritar hefur í gegnum árin ferðast víða. Ein slík ferð var svolítið “öðruvísi” en aðrar og því var ákveðið að það væri við hæfi að kynna magnaðan stað, einn af okkar uppáhalds, fyrir okkar góðu lesendum.

Esalen að morgni – mynd úr einkasafni
Nú skaltu ímynda þér, þú stendur á fallegri, en þó gamalli, viðarverönd, það er stutt í sólarupprás, kannski ertu að gera tai chi æfingu eða í sólarhyllingu jóganna, kannski siturðu bara í ró og horfir mildum augum út á Kyrrahafið og kannski ertu í Kaliforníu og á stað sem heitir ESALEN. Ef þú ert þar og ert einstaklega heppin/n sérðu jafnvel höfrunga leika sér í öldunum mjúku, eins og við sáum. Svoleiðis stund finnst okkur alvöru og sannkölluð töfrastund.

Esalen böðin – mynd úr einkasafni
E S A L E N – Orðið sjálft dregur fram nokkurskonar draumsýn um ævintýri, af ókönnuðum löndum og möguleikum mannsins sem eiga enn eftir að verða að veruleika. Staðurinn sjálfur er undursamlegur. Blanda af frjósömu landi skorið út milli fjalls og fjöru, rammað inn af djúpum gljúfrum og heitum jarðböðum og sama á hvaða tíma árs sem þú ert þar er alltaf taktfastur sjávarniðurinn í bakgrunni.
Svo er það fólkið, fólkið sem hefur búið þar, býr þar og elskar staðinn og svo þeir 750.000 (þar á meðal þónokkrir Íslendingar) sem hafa komið allstaðar að úr heiminum á yfir 50 ára sögu þessa magnaða staðar sem býður líkama og sál, hug og hjarta, að reyna sig í samfélagi sem ýtir ekki undir hraða og yfirborðsleg samskipti eða snöggfenginn lærdóm heldur miklu frekar það sem dýpra er, innihaldsríkara og varanlegra.

Esalen – mynd úr einkasafni
Að hafa notið þess að eyða nokkrum vikum á ESALEN, og meðal annars fengið tilsögn við ESALEN nudd, sem er sannarlega gott að gefa og himneskt að þiggja, er minning um ógleymanlegt “frí” og á árinu 2018 eigum við einmitt pantaðan tíma í slíku nuddi, á ESALEN (!!!) og við ferðumst þangað í huganum á meðan við skrifum þessar línur og leyfum okkur að hlakka til. Við bjóðum þér að heimsækja heimasíðu ESALEN hér að neðan og kynnast staðnum örlítið. Kannski bíða þín falleg ævintýri þar. Njótum og nærumst.
Á ESALEN eru haldin fjölmörg og fjölbreytileg námskeið allan ársins hring sem er vel þess virði að kynna sér. www.esalen.org