Mér finnst ekki annað við hæfi en að þeir sem vinna hjá “Banka Grúppu” klæði sig samkvæmt “power dressing” reglum. Og þar sem að ég hef í hyggju að taka á honum stóra mínum í nýju vinnunni og vera alltaf í nýpressuðu, sterkjuðu og hæluðu þurfti ég að fara í bæinn í dag í smá leiðangur. Ég fann þessa líka dúndrandi fínu hæla/vinnuskó í Next ásamt hvítri skyrtu og þá þurfti bara að finna buxurnar. Ég keypti að endingu bara einfaldar svartar buxur sem er kannski ekki í frásögur færandi. Nei, það sem er spennandi við þetta er að þær eru agnarsmáar. Pínkuponsulitlar. Á minn mælikvarða það er að segja. Þegar ég held á þeim og skoða trúi ég eiginlega ekki að ég passi í svona smágerða flík. Þær eru nefnilega númer 16. Númer 16 er stærsta “eðlilega” númerið. Það má oftast búast við að finna það númer í flestum venjulegum verslunum. Á myndinni sjást buxurnar sem ég er í á 125 kílóa myndinni og svo ofan á þeim buxurnar sem ég keypti í dag. Mér finnst þetta eiginlega bara skemmtilegt. Ég get ekki hætt að flissa. Tíhíhíhíhí!
Þessi færsla birtist fyrst hér þann 28. febrúar 2010