Lax er alltaf góður! Fullur af gæða próteinum og hollum fitusýrum – en það gildir þó aðeins ef um er að ræða villtan lax eða lax sem hefur verið alinn við góð skilyrði og fengið fóður sem líkist náttúrulegri fæðu hans. Þessi uppskrift er með tómötum – sýran í þeim fer vel með bragði laxins – og fennel inniheldur plöntuefni sem geta hjálpað við meltingu á feitum mat.

Undirbúningur: 20 mín
Eldunartími: 10 mín
Heildartími: 30 mín

Innihald (fyrir 2 skammta):

  • 1 stk fennel

  • 2 stórir, þroskaðir tómatar

  • 2 tsk fennelfræ

  • 2 stórar laxasteikur

  • Ólífuolía eða smjör til steikingar

  • Nýmalaður pipar, salt og smá sítrónusafi

Aðferð:

  1. Skerðu fennel í þunnar sneiðar, notaðu mandólín ef vill – en farðu varlega með fingurna! Skerðu tómatana í frekar þykkar sneiðar.

  2. Steiktu fennel og fennelfræ í olíu eða smjöri í nokkrar mínútur. Taktu af pönnunni og geymdu á fati undir álpappír eða viskastykki til að halda heitu.

  3. Steiktu tómatana á báðum hliðum í olíu og raðaðu þeim með fennelinu.

  4. Steiktu laxinn í fimm mínútur á hvorri hlið eða gufueldaðu hann í 10 mínútur yfir gufu.

  5. Raðaðu fiskinum ofan á fennel og tómat, kryddaðu með salti og pipar og skvettu sítrónusafa yfir.

Þorbjörg Hafsteinsdóttir er móðir og amma, heilsufrumkvöðull, hjúkrunarfræðingur, næringarþerapisti og metsölurithöfundur með yfir 30 ára reynslu og hefur haldið fjölmörg námskeið á Íslandi, í Danmörku og víðar í gegnum árin og aðstoðað fjölda fólks að taka mikilvæg skref að bættri heilsu.

Þorbjörg sérhæfir sig í sykurlausum lífsstíl, bólgustemmandi fæði og lágkolvetna mataræði. Hún leggur sérstaka áherslu á breytingaskeiðið og heilsufar kvenna yfir fimmtugt, en hefur einnig víðtæka reynslu í meðferð á sykurfíkn, offitu og tengdum heilsufarsvandamálum ásamt fleiru.

Þorbjörg býður upp á einkaráðgjöf og námskeið, hafðu samband: thorbjorg@thorbjorg.dk