Insúlín er mikilvægt hormón sem stjórnar sykurmagni í blóði.
Briskirtillinn framleiðir insúlín og hjálpar til við að flytja sykur úr blóði og inn í frumur til geymslu. Þegar frumur mynda þol gegn insúlíni geta þær ekki notað hormónið með góðu móti, sem veldur of háum blóðsykri.
Þegar briskirtillinn skynjar háan blóðsykur framleiðir hann meira insúlín til að vinna bug á þolinu svo að blóðsykurinn geti lækkað.
Með tímanum getur þetta valdið eyðingu á insúlínframleiðandi frumum briskirtilsins, sem er algengt í sykursýki 2. Hár blóðsykur sem viðvarandi ástand getur skemmt taugar og líffæri.
Þeir sem eru í yfirþyngd, með forstig sykursýki eða ættarsögu um sykursýki 2 eru í mestri hættu á að mynda þol gegn insúlíni.
Með insúlínnæmi er átt við hversu móttækilegar frumur líkamans eru fyrir insúlíni. Bætt insúlínnæmi getur dregið úr insúlínþoli og hættunni á mörgum sjúkdómum, þ.á.m. sykursýki.
Hér eru 14 náttúrulegar leiðir sem rannsóknir hafa sýnt fram á að geti aukið insúlínnæmi.
1. Sofðu meira
Of lítill svefn getur haft skaðleg áhrif á heilsuna og gæti aukið þol gegn insúlíni. Að vinna upp tapaðan svefn getur unnið á móti skaðseminni og snúið þróuninni við.
2. Hreyfðu þig meira
Þrek- og styrktarþjálfun getur stuðlað að auknu insúlínnæmi og að blanda þessum tveimur þjálfunaraðferðum saman virðist gera mesta gagnið.
3. Minnkaðu streituna
Það eru tengsl á milli viðvarandi streitu og aukinnar hættu á insúlínþoli. Hugleiðsla, æfingar og svefn eru frábærar leiðir til að draga úr streitu.
4. Léttu þig um nokkur kíló
Aukakílóin, sérstaklega á magasvæðinu, draga úr insúlínnæmi. Þyngdartap gæti aukið insúlínnæmi og tengist minnkandi hættu á sykursýki.
5. Borðaðu meira af vatnsleysanlegum trefjum
Að borða vatnsleysanlega trefjar hefur ýmis jákvæð áhrif á heilsuna og tengist auknu insúlínnæmi. Það gefur insúlíni meiri tíma til að vinna sitt verk og hjálpar til við að fæða góðu gerlana í þarmaflórunni.
6. Bættu meira af litríkum ávöxtum og grænmeti við mataræðið
Litríkir ávextir og grænmeti innihalda plöntuefni sem hjálpa til við að auka insúlínnæmi. Gættu þess þó að borða ekki of mikið af ávöxtum í einu því að margar tegundir þeirra innihalda mikinn sykur.
7. Notaðu meira af kryddi og kryddjurtum við matseldina
Hvítlaukur, grikkjasmári, túrmerik og engifer stuðla hugsanlega að auknu insúlínnæmi. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta en frekari rannsókna er þörf áður en hægt er að segja eitthvað með vissu.
8. Bættu við smá kanil
Kanill gæti stuðlað að auknu insúlínnæmi með því að auka flutning á glúkósa inn í frumur og gæti jafnvel innihaldið efnasambönd sem herma eftir insúlíni og þannig aukið upptöku sykurs úr blóði.
9. Drekktu grænt te
Grænt te getur stuðlað að auknu insúlínnæmi og betri heilsu heilt yfir. Það gæti verið út af andoxunarefninu epigallocatechin gallate sem finnst í grænu tei.
10. Prófaðu eplaedik
Edik getur stuðlað að auknu insúlínnæmi með því að bæta virkni insúlíns og hægja á fæðulosun úr maga svo insúlínið fái rýmri tíma til að vinna.
11. Dragður úr neyslu kolvetna
Að borða minna af kolvetnum, dreifa betur neyslunni á þeim yfir daginn og velja fæðu með lágan sykurstuðul er skynsamleg leið til að auka insúlínnæmi.
12. Forðastu transfitu
Tengslin á milli transfitu og insúlínþols er sterkari í dýrarannsóknum heldur en klínískum rannsóknum. Það er samt sem áður best að forðast transfitur því þær auka hættuna á mörgum öðrum sjúkdómum.
13. Dragðu úr neyslu á viðbættum sykri
Það eru tengsl á milli mikillar neyslu á frúktósa og meiri áhættu á insúlínþoli. Dæmi um frúktósaríka fæðu eru gosdrykkir, sætabrauð og ýmsar salatsósur.
14. Prófaðu fæðubótarefni
Króm, berberín og magnesíum tengjast auknu insúlínnæmi. Resveratrol virðist auka insúlínnæmi, sérstaklega á meðal þeirra sem eru með sykursýki 2.
Að lokum
Insúlín er mikilvægt hormón sem gegnir ýmsum hlutverkum í mannslíkamanum.
Lélegt insúlínnæmi setur meira álag á briskirtilinn því hann þarf þá að framleiða meira insúlín til að lækka sykurmagnið í blóðinu.
Lélegt insúlínnæmi getur einnig leitt af sér of hátt sykurmagn í blóði til lengri tíma, sem er talið auka hættuna á sjúkdómum, þ.á.m. sykursýki og hjartasjúkdómum.
Sem betur fer eru til margar náttúrulegar aðferðir sem geta aukið insúlínnæmið.
Prófaðu einhverjar af uppástungunum sem eru taldar upp í þessari grein til að auka insúlínnæmið og dragðu þannig úr hættunni á sjúkdómum.
Ofangreint efni er eingöngu hluti af ítarlegri grein af vef Authority Nutrition þar sem einnig má finna heimildirnar sem stuðst var við. Lestu alla greinina hér.