Í nýútkominni bók er því haldið fram að heilinn móti tilfinningar út frá fyrri reynslu. En gengur höfundurinn of langt?

Hvernig virka tilfinningar? Eru þær meðfæddar eða lærum við þær eins og við lærum nöfn á litum?

Áður fyrr hölluðust vísindamenn sem stunduðu rannsóknir á sviði tilfinninga að algildri kenningu sem var byggð á áralöngum rannsóknum: Tilfinningar eru meðfæddar, lífeðlisfræðileg viðbrögð við utanaðkomandi áreiti, sem hefur þróast í gegnum aldirnar til að hjálpa mannskepnunni að komast af.

Þessir vísindamenn reyndu að skrá niður upplifanir, hegðunarmynstur og kortleggja skilning fólks á tilfinningum í ólíkum menningarheimum – og líkindin voru víða. Burtséð frá menningu og siðum virtist fólk sem stóð frammi fyrir hættu upplifa ótta sem hjálpaði þeim að flýja og foreldrar sem héldu athygli á afkvæmum sínum sögðust upplifa ást sem ýtir undir skilyrðislausa umönnun.

Svipuð tjáning tilfinninga koma m.a.s. fram hjá öðrum prímötum.

En Lisa Feldman-Barrett, sálfræðingur og sérfræðingur á sviði tilfinninga, gaf nýverið út bók, How Emotions are Made, þar sem hún dregur þessi viðhorf í efa. Áralangar deilur hafa átt sér stað og í stuttu máli heldur hún því fram að tilfinningar séu ekki meðfædd, ósjálfráð viðbrögð heldur eitthvað sem maður lærir, byggt á fyrri reynslu og vitneskju. Hún kemur með frábæra punkta og bendir á merkilegar rannsóknir – en seilist síðan of langt í röksemd sinni.

Er þetta möffins eða formkaka?

Í bókinni sýnir Feldman-Barrett lesandanum hversu auðvelt það er að lesa rangt í tilfinningar annarra. Hún notar nærmynd af tennisstjörnunni Serenu Williams sem dæmi. Út frá svipbrigðum hennar að dæma virðist hún þjást frekar en að vera í sigurvímu – og sýnir þannig fram á hversu auðvelt það er að rangtúlka tilfinningar annarra.

Þar af leiðandi heldur Feldman-Barrett því fram að ekki sé hægt að segja að tjáningar á tilfinningum séu altækar. Það sama á við um rannsóknir á hversu vel fólk les í tilfinningaleg hljóð annarra; hennar eigin rannsóknir sýna fram á það að Himba-fólkið í Namibíu getur ekki gert greinarmun á stuttum innöndunarhljóðum sem eru annars vegar út af ótta og hins vegar vegna undrunar.

Feldman-Barrett heldur áfram og lætur í ljós vægðarlausa gagnrýni á þeim rannsóknum sem styðja altæku hugmyndina. Eftir að hafa sjálf reynt og mistekist að koma meiriháttar uppgötvunum á framfæri, fer hún í að benda á galla í rannsóknaraðferðum annarra, talar um sínar eigin ósamhljóða niðurstöður (með örlítið breyttri aðferðarfræði) og, til að fá einhvern botn í þetta allt saman, endurskilgreinir tilfinningar sem lærða, félagslega hegðun. Skilgreining sem er keimlík fyrri hugmyndum, eins og hún sé að reyna að finna út hver sé munurinn á möffins og formköku.

„Möffins-formköku aðgreiningin er félagslegur veruleiki; þegar áþreifanlegir hlutir eins og bökunarvörur verða félagslega samþykktar sem eitthvað annað og meira,“ skrifar hún.

Vissulega eru flestir sérfræðingar á sviði tilfinninga sammála þessu, án þess að afneita altæku hugmyndinni, að ekki sé hægt að tjá tilfinningar einvörðungu með svipbrigðum eða röddinni einni saman eða, ef út í það er farið, hjartsláttartíðni, stærð augasteina, blóðflæði, heilavirkni eða með öðrum vísindalegum mæliaðferðum. Skilningurinn er frekar sá að það liggi alls kyns þættir að baki tilfinningu sem fléttast saman: líkamstjáningar (svipbrigði, raddblær, líkamsstaða, snerting, lyktarskyn, málfar), ásamt lífeðlisfræðilegum þáttum sem er jafnvel ekki hægt að mæla með nútímatækni.

Höfundur bókarinnar lendir í ógöngum því hann tekur ekki margbrotið eðli tilfinninga inn í myndina og hátt flækjustig við rannsóknir á þeim.

Hvernig fara erfðir og aðbúð saman?

Feldman-Barrett hefur rétt fyrir sér þegar hún segir að rannsóknir hafi ekki enn náð að kortleggja „fingraför“ mismunandi tilfinninga. En er rétt að halda því fram að fingraförin séu ekki til, sérstaklega þegar ýmislegt bendir til þess? Rannsóknir eru í fullum gangi á þessu sviði: rannsóknarteymi taugasérfræðinga í Finnlandi notuðu nýlega kvikmyndir til að kalla fram sex grunntilfinningar. Tekið var eftir augljósu mynstri á taugavirkni fyrir hverja tilfinningu, sem bendir til einhvers konar „fingrafars“ – að minnsta kosti hvað taugakerfið varðar.

Það er forvitnilegt að módel Feldman-Barrett endar á því að vera furðu líkt kenningunni um algildar tilfinningar. Sá hópur flokkar tilfinningar niður í 1) líkamlega tilfinningu, 2) túlkun á utanaðkomandi aðstæðum og 3) viðbrögð við aðstæðum. Þessir þættir eru keimlíkir kerfi Feldman-Barrett: 1) grunnlíkamstilfinning, 2) túlkun sem tengist því sem viðkomandi hefur lært um þá tilfinningu og kringumstæður og 3) hegðun sem byggir á þeirri túlkun.

Hver er munurinn? Þarf að sjá þetta sem annaðhvort eða? Getur verið að sumar tilfinningar séu til staðar frá fyrsta degi á meðan aðrar verða til á lífsleiðinni – kannski blæbrigði af flóknari tilfinningum sem mótast á lífsleiðinni?

Bókin hennar getur hugsanlega leitt til dýpri skilnings á tilfinningum, en gagnrýni hennar á algildu kenningunni virðist ganga út í öfgar. Hennar eigið módel er of flókið og furðu líkt því módeli sem hún reynir að afsanna. Í stað þess að bæta við það sem vísindin hafa fundið út til þessa, þá reynir hún að ryðja því úr vegi – og það sem hún hefur fram að færa er ósköp svipað því sem fyrir er.

Hver er tilfinningasaga okkar?

Hver er þá staðan í dag?

Ein hjálpleg uppgötvun úr bók Feldman-Barrett er að það sem við höfum upplifað í lífinu hefur mikil áhrif á tilfinningar okkar, oft ómeðvituð áhrif. Hugsanlega er því hægt að vera meira vakandi og vera meðvitaðri um áhrifin sem við getum haft á það hvernig tilfinningar okkar mótast.

Feldman-Barrett bendir á að núvitund – að gefa hugsunum og tilfinningum sínum gaum án þess að leggja dóm á þær – geti kallað fram hugarástand þar sem skilyrtar væntingar hafa minni áhrif á það sem er að gerast hér og nú.

Sem dæmi getur maður átt í ágreiningi við einhvern og búist við því að verða reiðari eftir því sem að líður á; þannig hefur það alltaf verið. Ef maður hættir að gera ráð fyrir ákveðinni útkomu, gæti maður kannski heyrt hvað hinn aðilinn hefur að segja og aukið þannig möguleikann á uppbyggilegri lausn á deilunni. Samkvæmt rannsóknum Judson Brewer, geðlæknis og taugasérfræðings, getur ástundun núvitundar dregið úr sjálfmiðuðum væntingum sem fyrir vikið hefur jákvæð áhrif á vellíðan manns.

Aðrar rannsóknir benda til þess að ef hugsunum sem kalla fram sjálfmiðað tal á borð við „ég er“ eða „mér finnst“ er ýtt til hliðar geti það aukið tilfinningalega vellíðan.

Við getum ef til vill sammælst um eitt: Tilfinningar eru mikilvægar fyrir mannlega reynslu. Eins og saga Phineas Gage sýndi svo eftirminnilega, þá eru tilfinningar nauðsynlegur þáttur rökréttrar hugsunar og samkvæmt rannsóknum á því hvernig fólk höndlar tilfinningar, þá hefur bæling á þeim bæði skaðleg áhrif á félagsleg samskipti sem og andlega heilsu.

Feldman-Barrett er klárlega á því að við eigum ekki einfaldlega að samþykkja gamaldags skoðanir á tilfinningum án nokkurs rökstuðnings og því meira sem við lærum um tilfinningar, því betra. Ég er hjartanlega sammála henni hvað þetta varðar.

Þessi grein eftir Emiliana R. Simon-Thomas birtist fyrst þann 4. ágúst 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.