Samkvæmt nýrri rannsókn ofmetum við færni okkar í að lesa í tilfinningar annarra út frá svipbrigðum þeirra.

Oft er því haldið fram að svipbrigði komi upp um réttar tilfinningar fólks – líka í þeim tilfellum sem viðkomandi reynir að fela þær. Í gegnum daginn fylgjumst við með svipbrigðum fólks og háttalagi, horfum eftir streitu, sorg og gleði í andlitum samstarfsfélaga okkar og ástvina.

En ef við viljum skilja hug annarra, er það þá besta leiðin?

Það á ekki alltaf við samkvæmt nýlegri rannsókn. Það kemur í ljós að fólk á það til að ofmeta hæfni sína í að lesa í tilfinningar annarra út frá svipbrigðum þeirra – sem þýðir að við förum á mis við önnur tækifæri til að skilja og tengjast öðrum.

Rannsóknin, sem var birt í tímaritinu Psychological Science, bar saman þátttakendur sem skoðuðu svipbrigði annarra og þátttakendur sem reyndu að setja sig í spor þeirra sem skoðuðu svipbrigðin. Þetta er fyrsta rannsóknin sem skoðar hvað fólki finnst um gagnsemi þessara aðferða í samanburði við hversu gagnlegar þær eru í raun og veru.

Nokkrar tilraunir voru framkvæmdar á tveimur hópum þar sem fyrri hópur þátttakendanna (kallaðir rannsakendur) var tekin upp á myndband á meðan hann skoðaði 50 ljósmyndir sem sýndu mismunandi tilfinningar. Þátttakendurnir gáfu hverri mynd einkunn út frá því hvort þeir upplifðu jákvæð eða neikvæð viðbrögð.

Þátttakendur í seinni hópnum (kallaðir sjónarvottar) áttu að giska á hversu jákvæðar eða neikvæðar upplifanir einstaklinga úr fyrri hópnum voru á meðan þeir horfðu á myndirnar. Þrjár aðferðir voru notaðir til að spá fyrir um upplifanir hinnar: þeir skoðuðu sjálfir myndirnar, fylgdust með svipbrigðum rannsakendanna eða horfðu á myndband sem sýndi bæði ljósmyndirnar og svipbrigði rannsakendanna.

Sjónarvottarnir náðu að giska umtalsvert betur á tilfinningar rannsakendanna þegar þeir sjálfir skoðuðu ljósmyndirnar heldur en þegar þeir fylgdust eingöngu með svipbrigðum hinna úr fyrri hópnum – þetta átti m.a.s. við þegar rannsakendurnir voru beðnir um að ýkja tilfinningar sínar á meðan þeir skoðuðu myndirnar. Fyrsta aðferðin virkaði betur í 92% tilfella. Það vakti líka forvitni að sjónarvottarnir sem fengu bæði að sjá ljósmyndirnar og svipbrigði rannsakendanna voru ekki nákvæmari í sínum ágiskunum heldur en þeir sem fengu aðeins að sjá svipbrigði rannsakenda.

Í annarri tilraun fengu sjáendurnir að velja hvora aðferðina þeir vildu nota – en þeir áttu erfitt með að átta sig á því hvor aðferðin væri árangursríkari. Hópurinn skiptist u.þ.b. til helminga í vali sínu.

Sjáendurnir öðluðust innsýn þegar þeir fengu leyfi til að velja hvora aðferðina þeir notuðu á milli lota – þeir völdu að lesa minna í svipbrigði hins hópsins eftir því sem leið á tilraunina. Þeir héldu samt sem áður áfram að velja þessa aðferð af og til þegar það hefði verið gagnlegra að reiða sig eingöngu á ljósmyndirnar.

Einnig var rannsakað hversu vel þátttakendurnir áttuðu sig á sínu eigin tilfinningaástandi eins og það var skráð í tilraunaverkefni átta vikum fyrr. Það kom aftur í ljós að það reyndist árangursríkara að endurtaka tilraunina frekar en að horfa á svipbrigði annarra þátttakenda.

Fólk bjóst við því að geta spáð nákvæmar fyrir um sínar eigin tilfinningar heldur en tilfinningar ókunnugra út frá svipbrigðum þeirra, en ekki einu sinni það reyndist vera rétt.

Þessar tilraunir benda til þess að hugmyndir fólks um hvernig best sé að skilja hvað aðrir ganga í gegnum eru oft rangar – fólk ofmetur þátt ytri hegðunar í tengslum við innra ástand og það vanmetur áhrifin af því að setja sig í spor annarra.

Þessi rannsókn bætist í hóp annarra rannsókna sem sýna fram á takmarkanir þess að lesa í tilfinningar annarra út frá svipbrigðum einum saman. Í einni rannsókn gátu þátttakendur ekki greint á milli einlægni og uppgerðar í svipbrigðum annarra í 40% tilfella. Færni fólks í að lesa í svip annarra er ekkert sérlega góð, sem á m.a.s. við þegar fólk er ekki að reyna að fela tilfinningar sínar. Og önnur rannsókn leiddi í ljós að fólk heldur að þeirra eigið innra ástand sé sýnilegra út á við en það er í raun og veru.

Þessi rannsókn sýnir líka að fólk gerir of mikið úr muninum á milli sín og annarra: Þátttakendurnir bjuggust ekki við því að það að upplifa sömu kringumstæður og önnur manneskja gæti gefið þeim betri skilning á líðan hennar. En það er einmitt það sem gerðist. Þetta er líklega ástæðan fyrir því að þátttakendur rannsóknarinnar höfðu litla trú á ágæti þess að setja sig í spor annarra.

„Hugur annarrar manneskju er mögulega flóknasta kerfi sem nokkur getur hugsað sér,“ segja þeir sem stóðu að rannsókninni. „Niðurstöður okkar benda til þess að fólk áttar sig ekki alveg á því hvort það sé að nota góðar eða slæmar leiðir til að skilja þetta gríðarflókna kerfi.“

Þessi grein eftir Summer Allen birtist fyrst þann 10. apríl 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.