Sálfræðingurinn Ty Tashiro útskýrir hvers vegna sumir eru vandræðalegri í félagslegum aðstæðum og hvernig hægt er að tengjast öðrum á eigin styrkleika.

Mörg okkar hafa upplifað vandræðaleg augnablik þegar við getum ekki lesið í einhverjar félagslegar aðstæður og drögum okkur því til hlés. Okkur getur vissulega liðið óþægilega út af þessum viðbrögðum, en þau hafa ekki endilega svo mikil áhrif á samskipti okkar við aðra.

En fyrir suma er feimni og vandræðaleiki hluti af lífinu, þar sem vandræðalegir misskilningar leiða reglulega til félagslegrar einangrunar. Þetta særir ekki bara viðkomandi heldur getur þetta líka reynst fjölskyldumeðlimum og vinum erfitt.

Þeir sem eru vandræðalegir – eða þeir sem þekkja einhvern sem er það – þurfa ekki að leita langt yfir skammt því sálfræðingurinn Ty Tashiro gaf nýlega út bók, Awkward: The Science of Why We’re Socially Awkward and Why That’s Awesome. Í bók sinni útskýrir Tashiro taugavísindin á bak við vandræðaleikann sem fólk upplifir og hvers vegna það reynist þeim erfitt að lesa í félagslegar aðstæður. Bókin hans veitir ekki aðeins leiðsögn í því hvernig eigi að tækla vandræðaleika heldur beinir hún líka sjónum að ákveðnum styrkleikum þeirra sem eru vandræðalegir.

Vandræðalegi heilinn

Samkvæmt Tashiro á vandræðalegt fólk til með að sjá hlutina öðruvísi, beina athyglinni að þáttum í umhverfinu sem fara framhjá flestum. Sem þýðir að þessir vandræðalegu eyða kannski löngum stundum í að grúska í vinnuskjölum í tölvunni og taka ekki eftir óljósum merkjum annarra – eins og krosslögðum örmum eða fótahristingi – sem gefa eirðarleysi til kynna eða að einhverjum leiðist.

Munurinn liggur í heilanum. Rannsóknir á sviði taugavísinda benda til þess að vandræðalegt fólk – sem er að einhverju leyti svipað og fólk með einhverfu eða Asperger – er með minni virkni í „félagsheilanum“ og þarf að leggja meira á sig til að geta túlkað félagsleg merki. Þetta er ekki bara erfitt og lýjandi; þetta getur líka orsakað kvíða sem er líkleg ástæða fyrir því að vandræðalegt fólk kýs stundum að draga sig algjörlega út úr félagslífinu.

Þetta er augljóslega vandamál því félagsleg tengsl eru mikilvæg fyrir hamingjusamt og heilbrigt líf. En Tashiro er með hugmyndir um hvernig vandræðalegt fólk getur slakað meira á í félagslegum aðstæðum, t.d. með því að rækta með sér forvitni og hafa minni áhyggjur af því að sýnast klárt.

„Að hafa einlægan áhuga á því hvað aðrir hafa að segja kemur þeim skilaboðum áleiðis að maður óski þeim alls hins besta,“ skrifar hann. Meira að segja vandræðalegt fólk getur tileinkað sér að spyrja frekar spurninga í stað þess að tala til að halda samtalinu gangandi, bendir hann á.

Hann bendir að auki á það sé hægt að læra að lesa í vísbendingar líkt og augnsamband í miðju samtali og að ekki grípa fram í fyrir öðrum. Vandræðaleg augnablik í samskiptum við annað fólk er hluti af lífinu og heimurinn mun ekki farast þótt þau komi af og til upp á. Að hafa þetta í huga getur hjálpað fólki að komast yfir svona augnablik og halda áfram.

Að ala upp vandræðalegt barn

Tashiro gefur foreldrum vandræðalegra barna gagnlegar ráðleggingar. Þannig börn geta ómeðvitað sagt eða gert hluti sem aðrir myndu túlka á neikvæðan hátt – líkt og að leiðrétta málfræði annarra eða fylgja reglum og rútínu til hins ýtrasta (sem hjálpar þeim í daglegu lífi en aðrir gætu séð þau sem ósveigjanleg) – og foreldrar þeirra geta sett sig í þjálfarahlutverk, bent barninu á annars konar leiðir sem myndu auðvelda samskipti þess við aðra.

„Foreldrar þurfa að sýna barninu sínu hluttekningu þegar það verður vandræðalegt í félagslegum aðstæðum sem því finnst vera yfirþyrmandi og finna leiðir til að kenna því „leikreglurnar“ svo það geti átt auðveldara með að passa inn,“ skrifar hann.

Ein leið er að kenna börnunum samfélagslegar venjur – varðandi klæðaburð, hegðun og talsmáta, sem eru ekki endilega svo augljósar en samt hægt að læra og æfa sig í. Tashiro minnist einnig á mikilvægi þess að hjálpa börnum að finna ástríðu fyrir einhverju og tengjast öðrum sem hafa svipuð áhugamál. Samfélagsmiðlar geta verið blessun fyrir nördið en Tashiro bendir á að það ætti að hvetja krakka sem eiga erfitt með félagslegar aðstæður til þess að nota samfélagsmiðla til að ákvarða stað og stund til að hitta vini frekar en að forðast samskipti.

Tashiro deilir af reynslu sinni sem vandræðalegum krakka til að undirstrika hvernig hann lærði að tengjast betur. Hann öðlaðist dýrmæta reynslu í gegnum tennisfélaga sinn frá menntaskólaárunum – strákur sem var pínu nörd en með góða félagslega færni – sem sýndi honum góðan stuðning eftir vandræðalegar aðstæður þar sem Tashiro gat ekki hitt einn einasta tennisbolta á æfingu. Þetta kenndi honum mikilvægi þess að sýna góðvild, tillitssemi og hollustu í vinasamböndum.

„Ef ég var nógu staðfastur í því að halda uppi jákvæðu hugarfari til samfélagsins, þá náði ég að milda áhrifin þegar ég óvart klúðraði einhverju í félagslegum aðstæðum eða stóð ekki undir væntingum út af klaufagangi í mér sem einhverjum öðrum misbauð,“ skrifar hann.

Það jákvæða við vandræðaleikann

Að vera nörd, hvort sem maður er krakki eða fullorðinn einstaklingur, er að sjálfsögðu ekki alslæmt. Tashiro skrifar um að athyglisgáfa þeirra sem verða oft vandræðalegir í félagslegum aðstæðum geti hjálpað þeim að hugsa út fyrir boxið. Hann bendir á vel þekkt dæmi um félagslega vandræðalega einstaklinga – eins og Steve Jobs og Albert Einstein – sem með þráhyggju sinni gátu orðið frumkvöðlar á sínum sviðum.

„Þótt vandræðalegt fólk taki ekki endilega eftir mikilvægum vísbendingum í samskiptum við aðra þá tekur það oft eftir ýmsum smáatriðum með mikilli nákvæmni sem gefur þeim dýpri skilning á hlutum sem enginn annar gefur sér tíma í að huga að,“ skrifar hann.

Það eru ekki allir sem búa yfir þessum hæfileika, útskýrir Tashiro. Vandræðalegt fólk getur þó hugsanlega staðið sig betur í að leysa úr vandamálum sem tengjast t.d. stærðfræði og vísindum; að taka sjónrænt eftir mynstri í fjölbreyttu umhverfi; og að þráast við á sviðum sem vekur áhuga þeirra. Þetta bendir til þess að vandræðaleiki geti haft einhverja þróunarfræðilega kosti, sem leiddi kannski til nýrra hugmynda og framfara sem hafa hjálpað hópum að lifa af í gegnum mannkynssöguna.

Bókin hans er einstaklega fræðandi fyrir vandræðalegt fólk sem vill ná betri tökum á félagslega þættinum, en hún er líka ákall til okkar hinna um að sýna því meiri skilning og hluttekningu. Ef við myndum öll sýna meiri skilning gagnvart þeim sem eiga erfitt uppdráttar félagslega – í stað þess að dæma og hafna – myndum við njóta góðs af stærri vinahópi og skapa þéttara samfélag.

Líkt og Tashiro skrifar: „Þegar vandræðalegt fólk leggur sig fram við að rækta með sér meiri hluttekningu og hinir sýna smá þolinmæði og hvatningu geta hóparnir tveir fundið óvenjulegar tengingar sín á milli.“

Ég á vini og fjölskyldumeðlimi sem eru ekki svo sleipir félagslega og get tekið algjörlega undir þessi orð.

Þessi grein eftir Jill Suttie birtist fyrst þann 20. júlí 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.