Við hnutum um þessa svolítið jólalegu rannsókn á þarmaflórunni og forvitni okkar var strax vakin þegar við lásum titil hennar. Við birtum hér að neðan lauslegan úrdrátt þar sem okkur þótti rannsóknin ansi merkileg, eins og svo margt sem tengist þarmaflórunni, sem nú er rannsökuð sem aldrei fyrr í tengslum við jafnt líkamlega sem andlega kvilla og sjúkdóma.
Hvað er það sem gerir hægðir okkar yfir jólahátíðirnar frábrugðnar hægðum aðra daga ársins? Eru þær yfirhöfuð eitthvað öðruvísi? Í rannsókninni kemur fram að við nána skoðun hægða kemur í ljós flókið samfélag örvera: þarmaflóran.
Þarmaflóran nokkurs konar líffæri
Þarmaflóran er í dag álitin nokkurs konar „líffæri“ sem hefur hlutverki að gegna í heilsu okkar og sjúkdómum. Umhverfisþættir, svo sem breytt matarræði, neysla áfengis og sálrænt álag geta raskað kjarnasamsetningu þarmaflórunnar sem svo tengist m.a. offitu, efnaskiptaheilkenni (e. metabolic syndrome) og þarmabólgu. Þekking á og möguleiki á að bera kennsl á umhverfisþætti sem hafa áhrif á samsetningu þarmaflórunnar eru einkar áhugaverðir, þar sem þessir þættir geta haft bein og óbein áhrif á heilsu okkar.
Samkvæmt rannsókninni getur jólahátíðin haft áhrif á heilsu okkar. Sér í lagi er aukin umgengni við tengdafólk yfir hátíðirnar talin mikilvægur umhverfisþáttur sem vitað er að geti haft áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu (Mirza et al., 2004).
Þó taka rannsakendur fram að ekki er enn vitað hvernig tengdafólk nákvæmlega hefur áhrif á þann sem heimsækir þau í þessu tilliti. Nýjar vísbendingar benda til þess að örverur í þörmum okkar séu mikilvægur áhrifavaldur fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu. Í áðurnefndri rannsókn sem birtist í 13. hefti Human Microbiome Journal í ágúst 2019 og bar yfirskriftina, „Áhrif þess að borða jólamáltíðina með tengdafólki á samsetningu þarmaflórunnar“ var skoðað hvaða áhrif samskipti/samvera við tengdafólk gætu haft á þarmaflóruna yfir jólahátíðina.
Hóflegur mismunur á niðurstöðum
Saursýnum úr hópi 28 heilbrigðra sjálfboðaliða sem héldu upp á jólin var safnað á tveimur mismunandi tímapunktum árið 2016, þann 23. desember og svo aftur þann 27. desember. Rannsókn saursýnanna sýndi fram á að hægt var að greina á milli þeirra sem heimsóttu eigin fjölskyldu yfir jólin og þeirra sem heimsóttu tengdafjölskyldu sína. Í sýnum hjá þátttakendum sem heimsóttu tengdafjölskylduna var veruleg fækkun allra Ruminococcus bakteríutegunda en þekkt mun vera að slík fækkun tengist streitu og þunglyndi. Þó ætti að taka fram að samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er mismunur á milli þarmaflóru hópanna tveggja hóflegur og talin er þörf á stærri rannsókn áður en því er slegið föstu að jólaheimsókn til tengdafjölskyldu gefi til kynna mögulegan áhættuþátt fyrir samsetningu þarmaflóru okkar og heilsu.
Að ofan er lauslega stiklað á stóru í þessari áhugaverðu rannsókn þar sem einnig er snert á samhengi á milli þarmaflóru og andlegrar- og líkamlegrar heilsu, eða tengsl heila og garna (e. gut-brain axis). Rannsóknina alla, sem á ensku ber heitið “The effect of having Christmas dinner with in-laws on gut microbiota composition” má finna hér .
Mynd: ©Shutterstock / Lightfield Studios