Það er vel þekkt að grænmeti sé gott fyrir heilsuna. Flestar grænmetistegundir innihalda lítið af kolvetnum en mikið af vítamínum, steinefnum og trefjum. Sumt grænmeti stendur þó framar öðru þegar kemur að jákvæðum áhrifum þess á heilsuna á borð við bólgueyðandi eiginleika og minni hættu á sjúkdómum.
Hér eru talin upp 14 hollustu tegundirnar og útskýrt í stuttu máli af hverju þú ættir að bæta þeim við mataræðið þitt.
1. Spínat

Spínat er ríkt af andoxunarefnum sem geta dregið úr hættunni á langvinnum sjúkdómum ásamt áhættuþáttum á borð við of háan blóðþrýsting.
2. Gulrætur

Gulrætur innihalda mikið af beta-karótíni sem líkaminn getur umbreytt í A-vítamín. Hátt magn af andoxunarefnum getur líka dregið úr hættunni á lungna- og blöðruhálskrabbameini.
3. Brokkólí

Brokkólí er grænmeti af krossblómaætt og inniheldur sulforaphane, efnasamband sem mögulega hindrar krabbameinsvöxt. Neysla á brokkólí gæti líka dregið úr hættunni á langvinnum sjúkdómum með því að koma í veg fyrir oxunarálag.
4. Hvítlaukur

Rannsóknir sýna að hvítlaukur getur hjálpað til við að lækka magn þríglýseríða í blóði. Nokkrar rannsóknir hafa einnig sýnt það að hvítlaukur geti minnkað blóðsykurmagnið.
5. Rósakál

Rósakál inniheldur andoxunarefnið kaempferol sem getur hugsanlega varið frumur fyrir oxunarskemmdum og komið í veg fyrir langvinna sjúkdóma. Rósakál gæti líka hjálpað líkamanum að losa sig við eiturefni.
6. Grænkál

Grænkál er ríkt af A-, C- og K-vítamínum ásamt andoxunarefnum. Rannsóknir hafa sýnt það að drekka grænkálssafa geti lækkað blóðþrýsting og minnkað magn LDL-kólesteróls ásamt því að auka magn HDL-kólesteróls.
7. Grænar baunir

Grænar baunir innihalda ríkulegt magn af trefjum sem bæta meltinguna. Einnig innihalda þær plöntuefni sem kallast sapónín sem hefur hugsanlega krabbameinsvarnandi virkni.
8. Stilkbeðja

Dýrarannsóknir hafa sýnt það að stilkbeðja geti varist neikvæðum áhrifum af völdum sykursýki og geti lækkað blóðsykurmagnið.
9. Engifer
Rannsóknir sýna að engifer geti dregið úr ógleði og bólgum og stuðlað að lægri blóðsykri.
10. Aspas

Aspas er sérstaklega ríkur af fólati sem getur hjálpað til við að koma í veg fyrir fæðingargalla í taugapípu. Rannsóknir sýna líka að aspas geti styrkt starfsemi lifrar og því dregið úr hættu á eitrunum.
11. Rauðkál
Rauðkál inniheldur dágóðan skammt af trefjum, C-vítamíni og antósýaníni. Nokkrar rannsóknir sýna að ráðkál geti dregið úr kólesterólmagni í blóði, minnkað bólgur og komið í veg fyrir hjarta- og lifrarskemmdir.
12. Sætar kartöflur

Sætar kartöflur eru ríkar af beta-karótíni sem getur dregið úr hættunni á nokkrum tegundum krabbameina. Hvítar sætar kartöflur geta líka hjálpað til við að lækka magn kólesteróls og sykurs í blóði.
13. Sveitakál

Sveitakál (e. collard greens) er kalkríkt sem getur dregið úr hættunni á beinþynningu. Regluleg neysla á sveitakáli hefur einnig verið tengd við minni hættu á gláku og blöðruhálskrabbameini.
14. Hnúðkál

Hnúðkál er trefjaríkt og inniheldur mikið af C-vítamíni. Dýrarannsóknir sýna að hnúðkál geti hugsanlega dregið úr sykurmagni í blóði.
Að lokum
Vítamín og steinefni eru mikilvæg í baráttunni gegn sjúkdómum og liggur það því ljóst fyrir að grænmeti þarf að vera lykilþáttur í mataræðinu til að halda góðri heilsu.
Grænmetið á þessum lista hefur verið ítarlega rannsakað í tengslum við áhrif þess á heilsuna, en af nógu er að taka því til er fullt af öðrum tegundum sem hafa líka góð áhrif.
Vertu viss um að þú sért að fá fjölbreytt úrval grænmetis úr fæðunni svo þú getir nýtt þér hin ýmsu heilsubætandi áhrif þess og að þú fáir góða og mikla næringu fyrir lítinn pening.
Ofangreint efni er eingöngu hluti af ítarlegri grein af vef Authority Nutrition þar sem einnig má finna heimildirnar sem stuðst var við. Lestu alla greinina hér.