Ný rannsókn á svæðum heilans sem tengjast þakklæti – og hún útskýrir ýmsa jákvæða þætti þakklætis.
Ímyndaðu þér að þú sért á flótta undan nasistum og ókunnug manneskja kemur þér til hjálpar. Hún útvegar þér fæði og skjól yfir veturinn – ferðast jafnvel til annarra bæja til að koma skilaboðum áleiðis til fjölskyldu þinnar – og ætlast ekki til neins af þér. Á meðan nasistarnir fanga fólkið sem er þér kærast, hvert á fætur öðru, þá heldur þessi ókunna manneskja þér á lífi og viðheldur trú þinni á mannkyninu, að það sé til fólk sem sýnir samúð og reisn jafnvel í hryllilegum harmleik sem þessum.
Ef þú hugsar út í þessa ókunnugu manneskju, hættuna sem hún lagði á sig, hvað hún gaf þér – hvernig myndi þér líða?
Kannski finnurðu jákvæðar tilfinningar streyma um þig, gleði yfir því að losna undan áhyggjunum sem fylgja stöðugri lífsbaráttu og kannski upplifir þú sterka tengingu við manneskjuna sem gaf þér þetta. Í stuttu máli sagt þá er hægt að lýsa þessum tilfinningum sem þakklæti.
Í heimspeki og trúarbrögðum er þakklæti í hávegum haft; nýlegar rannsóknir benda til þess að þakklæti hafi í för með sér umtalsverð jákvæð áhrif á andlegt og líkamlegt heilbrigði. En lítið er vitað um hvað í raun og veru gerist í heilanum og líkamanum þegar við upplifum þakklæti.
Af hverju skiptir það máli? Að skilja betur lífeðlisfræðina á bak við þakklæti getur hjálpað til við að finna leiðir til að halda utan um heilsufarsleg áhrif þess og þannig hjálpað fólki til að skilja mikilvægi þess að hlúa að þessari áhrifamiklu tilfinningu. Markmiðið með rannsóknum mínum hefur verið að leggja grunn að betri skilningi á því sem gerist í heilanum þegar við upplifum þakklæti – og myndin af þakkláta heilanum er nú að birtast okkur.
Hvað getur heilinn sagt okkur um þakklæti?
Þegar ég hófst handa við að rannsaka þakklæti fann ég heimspekileg fræðirit og trúarlegar hvatningar sem undirstrikuðu mikilvægi þakklætis, ásamt vísindalegum rannsóknum sem bentu til þess að þakklæti geti bætt svefn, haft jákvæð áhrif á ástarsambönd, dregið úr veikindum, hvatt mann til að stunda hreyfingu og aukið hamingju, ásamt mörgum öðrum áhrifum. Á þessum tíma var aftur á móti lítið vitað um það sem fer fram í heilanum og líkamanum þegar við upplifum þakklæti, sem gerði erfitt um vik að skilja hvernig þakklæti virkar í raun og veru. Ég er heila- og taugasérfræðingur og setti því fókusinn á taugalíffræðina á bak við þakklæti með ákveðna spurningu í huga: Getur virkni heilans varpað einhverju ljósi á jákvæðu áhrifin sem þakklæti hefur í för með sér?
Út frá greinilegu samhengi milli andlegrar og líkamlegrar heilsu gerði ég ráð fyrir að skilningur á því sem gerist í heilanum þegar við upplifum þakklæti geti opinberað meira um sambandið á milli hugar og líkama – sérstaklega hvernig jákvæðar tilfinningar geta aukið virkni líkamans. Ég gerði líka ráð fyrir því að niðurstöðurnar gætu hjálpað vísindamönnum að finna leiðir sem myndu ganga út á að ýta undir þakklæti með því að einblína á þá þætti og reynslu sem eru hvað mikilvægastir til að uppskera jákvæð áhrif þakklætis.
Það er þó hægara sagt en gert að fanga augnablikið þegar fólk upplifir þakklæti. Það getur gerst að sumir upplifi ekki þakklæti þegar við búumst við því og aðrir finni fyrir þakklæti í óvæntum aðstæðum. Ég taldi bestu líkurnar á að draga fram þakklæti væri í gegnum áhrifamiklar mannraunasögur.
Hvernig maður skapar þakklátan heila
Til að geta það sneri ég mér að USC Shoah Foundation sem heldur utan um stærsta safn af myndböndum sem sýna vitnisburði þeirra sem lifðu af helförina – og það sem kemur kannski á óvart er að margir vitnisburðirnir bera vott um hjartnæma óeigingirni og mannúð.
Í samvinnu við frábæran hóp háskólanema byrjaði ég að horfa á hundruð klukkustunda efni af vitnisburðum eftirlifenda í leit að sögum þar sem fólk fékk einhvers konar hjálp frá öðrum.
Við tókum saman þannig sögur og settum þær fram sem stuttar sviðsetningar sem við svo deildum með þátttakendum rannsóknarinnar. Hver sviðsetning var sett fram í annarri persónu (t.d. „Þú ert í dauðagöngu að vetri til og samfangi þinn gefur þér hlýja yfirhöfn“) og sýnd þátttakendum. Við báðum þá um að sjá sjálfa sig fyrir sér í þessum aðstæðum og reyna eftir fremsta megni að kalla fram tilfinningar líkt og þeir væru á staðnum. Á meðan þeir hugleiddu um það sem var í gangi, mældum við virkni heilans með nýlegri heilaskönnunartækni (starfænni segulómmyndun, einnig skammstafað fMRI).
Eftir hverja sviðsetningu spurðum við þátttakendurna hversu mikið þakklæti þeir upplifðu og bárum svo svörin saman við heilavirknina á því andartaki. Þessi nálgun dregur ekki fram sömu tilfinningar og verða við það að upplifa atburðinn á eigin skinni, en út frá svörum þeirra upplifðu þátttakendurnir djúpstætt þakklæti, þeir tóku þátt í verkefninu af heilum hug og, það sem var ef til vill enn mikilvægara, jókst innlifun þeirra og skilningur á helförinni eftir að hafa tekið þátt í rannsókninni.
Niðurstöður okkar sýndu fram á að þegar þátttakendurnir sögðu frá tilfinningum um þakklæti sýndi heili þeirra virkni á ákveðnum svæðum sem eru staðsett í heilaberkinum, nánar tiltekið í ennisblaði heilans þar sem heilahvelin tvö mætast. Þetta svæði heilans tengist skilningi okkar á sjónarhornum annarra, hluttekningu og að finna til léttis. Þetta er líka það svæði heilans sem tengist þeim kerfum sem stjórna tilfinningum og ýta undir streitulosun.
Fleiri ástæður fyrir þakklæti
Niðurstöðurnar sögðu okkur ýmislegt um þakklæti. Svæðin sem tengjast þakklæti eru hluti af tauganeti sem kviknar á þegar við blöndum geði við aðra og finnum til gleði. Þessi svæði tengjast líka hlutum heilans sem stjórna grunnstarfsemi á borð við hjartslátt og örvunarástandi og tengjast streitulosun og þar af leiðandi minnkun á sársauka. Þau tengjast líka „µ-ópíóða“ kerfi heilans sem virkjast við nána snertingu og létti á sársauka.
Með öðrum orðum sýna niðurstöður okkar að þakklæti tengist heilasvæðum sem hafa með félagsleg samskipti og streitulosun að gera sem þar af leiðandi getur útskýrt að hluta til af hverju þakklæti getur haft góð heilsufarsleg áhrif til lengri tíma litið. Að finna til þakklætis og þiggja hjálp annarra leiðir af sér meiri afslöppun sem opnar á jákvæðu áhrifin sem fylgja minnkaðri streitu. (Við birtum vísindagrein nýlega um þetta efni.)
Það sem gerir þetta enn meira spennandi er rannsókn Prathik Kini og kollega við Háskólann í Indiana sem bendir til þess að iðkun þakklætis geti breytt virkni heilans í þunglyndum einstaklingum. Þeir sýndu fram á að þakklæti geti ýtt undir breytingar á nákvæmlega sömu hlutum heilans þar sem við mældum virkni í okkar tilraunum. Niðurstöður sem þessar, ásamt okkar, varpa ljósi á það að andleg iðkun þakklætis geti breytt og endurnýjað tengsl heilafrumna. (Ef þú vilt fræðast meira um rannsóknina lestu þá þessa grein á vefsíðu Greater Good sem er skrifuð af Joel Wong og Joshua Brown, kollegum Prathik Kini.)
Auðvitað eru þessar niðurstöður aðeins fyrstu skrefin í löngu ferli. Ég og kollegar mínir fyllumst gleði yfir þeim fjölda rannsókna sem hafa verið gerðar á þakklæti og hvetjum við önnur rannsóknarteymi til að ganga til við liðs við okkur og rannsaka þessa áhrifamiklu tilfinningu. Það er alveg á hreinu að það er mikil vöntun á áframhaldandi rannsóknum á þakklæti og hversu mikil áhrif tilfinningin getur haft á okkur.
Ég æfi mig í þakklæti á hverjum degi. Við munum öll upplifa djúpstæðan missi og ganga í gegnum erfiðleika í lífinu.
Út frá rannsóknum mínum hingað til trúi ég því að þakklæti sem leið til að lina þjáningar við hinar og þessar kringumstæður sé ekki að „hugsa hamingjusamar hugsanir“ eða líta í hina áttina. Í staðinn koma góðu áhrifin líklega frá öðrum sviðum lífs okkar sem tengjast einmitt þakklæti. Þakklæti getur fært okkur nær hvert öðru, vakið okkur til meðvitundar um það sem við höfum og fengið okkur til að velta því fyrir okkur hvernig við getum sýnt meiri manngæsku.
Þessi grein eftir Glenn Fox birtist fyrst þann 4. ágúst 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.
Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.