Þorbjörg Hafsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur, næringarþerapisti og lífsstílsþjálfi er með sérþekkingu á breytingaskeiðinu. Hún segir að breytingaskeiðið sé ekki sjúkdómur.
Breytingaskeiðið getur haft áhrif á nánast allan líkamann og einkennin eru fjölmörg og geta verið afar ólík á milli kvenna. Ég sé ekki betur en að umræðan um breytingaskeiðið sé loksins farin að aukast á Íslandi, þó enn megi gera mun betur í því að draga athygli að þessu mikilvæga tímabili í lífi kvenna.
Breytingaskeiðið snertir þó ekki eingöngu konur, heldur samfélagið allt. Í Danmörku, þar sem ég bý, eru vinnustaðir til dæmis í auknum mæli farnir að huga að fræðslu á meðal starfsfólks. Sjálf hef ég haldið fræðslufundi í fjölda fyrirtækja og þó konur séu eðlilega sérstaklega áhugasamar um málefnið eru karlarnir líka orðnir forvitnari og sumir þora meira að segja að spyrja spurninga!
Að tala opinskátt um einkenni breytingsskeiðsins hefur allt of lengi verið „tabú“ og feimnismál. Konur tjá sig þó oft og leita ráða hjá hvorri annarri um upplifanir sínar, til dæmis á samfélagsmiðlum, sem er jákvætt fyrir umræðuna alla, en einnig vísbending um að þörf sé á mun meiri upplýsingum og fræðslu um breytingaskeiðið.
Einkenni geta verið fjölmörg
Flestar frumur og líffæri líkamans hafa estrógenviðtaka, þar á meðal beinfrumur, heilinn, taugakerfið, hjartað, húðin og slímhúðir. Breytingaskeiðið hefst yfirleitt á aldrinum 45–50 ára þegar framleiðsla estrógens í eggjastokkum minnkar og verður óregluleg. Tölur sýna að um 30% kvenna fara í gegnum þetta tímabil án teljandi einkenna, en um 70% upplifa einkenni af mismunandi alvarleika sem hafa áhrif á líkamlega og andlega heilsu, sjálfsmynd, lífsgæði og oft á tíðum starfsgetu.
Það eru talin vera um 40–50 mismunandi einkenni sem rekja má til hormónabreytinga, fyrir og eftir tíðahvörf. Mörg þeirra eru viðurkennd sem skýr einkenni á breytingaskeiðinu, en önnur eru ekki eins augljóslega tengd, eins og depurð, bólur og húðvandamál, ofsakláði og liðverkir auk fjölda annarra.
Ef þú ert á þessum aldri og upplifir vanlíðan eða einkenni sem eru nýfarin að koma fram, gæti vel verið að þau eigi rætur að rekja til hormónabreytinga. Þá er jafnframt mikilvægt að skoða heildarmyndina og heilsufarssöguna til að átta sig betur á hvað veldur og hvernig við getum stutt við líkamann til að takast á við breytingarnar.
Umbreytingartími – ekki veikindi
Við þurfum að átta okkur á að breytingaskeiðið felur í sér nákvæmlega það sem nafnið segir: breytingar. Það eru ekki veikindi, heldur náttúrulegur umbreytingartími í lífi kvenna sem á sér stað bæði á líkamlegu og andlegu sviði. Þessar breytingar endurspegla hversu samverkandi kerfi líkamans eru – hormónakerfið, taugakerfið, hjarta- og æðakerfið, stoðkerfi og bein, þarmaflóran og húðin, auk alls þess sem snýr að huga og andlegri heilsu.
Við ættum ekki að líta á breytingaskeiðið sem eitthvað sem við þurfum að „þola“ eða „komast í gegnum“, heldur sem tækifæri til að kynnast okkur sjálfum á nýjan hátt, sem eðlilegan og mikilvægan hluta lífsins, og reyna eftir fremsta megni að gefa okkur tíma til þess.
Við getum, sem samfélag (strákarnir líka!), talað meira og opinskátt um heilsu og líðan kvenna á þessum tíma, eflt umræðu og dýpkað skilning og haldið svo áfram veginn saman, upplýstari og sterkari. Þá getum við betur leitað þeirra leiða sem henta okkur og fengið aðstoð við hæfi. Um leið getum við einnig búið í haginn fyrir síðari árin okkar, þegar mestu breytingarnar hafa gengið yfir og einkenni sem kunna að hafa truflað okkur hafa vonandi gengið yfir og okkur tekist að ná utan um þau.
Aukum umræðuna
Með opnum samtölum, hlustun, spurningum, fræðslu og meiri meðvitund getum við unnið saman að því að rjúfa þögnina og kveðja skömmina sem óneitanlega hefur umlukið þetta tímabil. Ég sé það bæði hér heima og í Danmörku, að það væri ofsögum sagt að segja að breytingaskeiðið sé ofarlega á baugi. Það er tímabært að auka skilning og skapa samfélag sem styður, fræðir og styrkir konur á öllum stigum lífsins, líka á breytingaskeiðinu.
Eftir að hafa unnið við heilsutengda fræðslu um árabil, meðal annars um breytingaskeiðið, bæði fyrir einstaklinga og í fyrirtækjum, og rætt við fjölda kvenna um upplifun þeirra, sé ég hvað hlustun og samkennd skipta miklu máli. En eins og með svo margt annað leiðum við kannski fæstar hugann að þessu tímabili fyrr en við stöndum í því sjálfar.
Þegar óútskýrð einkenni virðast hreinlega taka yfir líf okkar og við áttum okkur ekki á því hvað veldur, getur það haft djúpstæð áhrif á líðan, sjálfsmynd og daglegt líf. En þegar við skiljum samhengi breytinganna og fáum skýr svör, breytist sýnin. Þá förum við að sjá mynstrið, skilja líkama okkar og líðan betur.
Það eru til ýmsar leiðir sem geta haft raunveruleg áhrif á líðan á breytingaskeiðinu. Hormónauppbót, í samráði við lækna, hentar mörgum konum og getur haft mjög jákvæð áhrif. Lífsstílsbreytingar, heilnæmt mataræði, regluleg hreyfing og markviss notkun valinna góðgerla og bætiefna geta einnig skipt sköpum fyrir jafnvægi og orku.
Einnig hafa hugrænar meðferðir og aðferðir sem efla sjálfsþekkingu og streitustjórnun, ásamt jóga og hugleiðslu, reynst mörgum konum vel þegar kemur að því að finna meiri ró og jafnvægi í daglegu lífi. Góður svefn og hvíld skiptir einnig máli.
Lífið heldur áfram í gegnum og eftir breytingaskeiðið. Hvort sem við sjáum okkur sækja um nýtt starf, stofna fyrirtæki eða hægja á ferðinni, taka upp ný áhugamál, endurvekja þau gömlu eða hlaupa á eftir litlum ömmubörnum (eins og ég geri mikið af þessa dagana og nýt þess!), þá er góð líðan, heilsa og líkamleg geta áfram mikilvæg.
Þekking er máttur. Þegar við tölum opinskátt um einkennin og reynsluna sköpum við rými fyrir skilning og samkennd. Þá þurfum við ekki lengur að upplifa okkur einar eða jafnvel sem „skrítnar“, „ruglaðar“ eða „allt í einu gamlar“ – eins og margar konur sem ég hef rætt við hafa haft orð á – heldur sjáum við að þetta er sameiginleg reynsla, og með því að deila upplifun okkar, getum við skapað meiri skilning, samstöðu og styrk.