Leiðin að heilbrigðu, farsælu og innihaldsríku lífi er kannski ekki sú sem við höldum.
Stundum virðast niðurstöður rannsókna á vellíðan liggja í augum uppi: Þakklæti gerir þig hamingjusamari; núvitund dregur úr streitu; góðmennska gerir mann glaðari.
En svo geta niðurstöður annarra rannsókna verið á skjön við almenna vitneskju. Niðurstöður þannig rannsókna geta haft áhrif á lífssýn okkur; ef við erum opin fyrir því geta þær breytt lífi okkar sem og samfélaginu í heild sinni.
Á fimmtu alþjóðlegu heimsráðstefnu Positive Psychology Association – fjögurra daga ráðstefna sem var haldin fyrr í þessum mánuði (júlí 2017) og yfir 1300 gestir sóttu – heyrði ég þrjú atriði sem komu flatt upp á mig.
1. Þú þarft ekki persónutöfra til að ná árangri
Hvað keyrir upp afköst í vinnunni?
Áður fyrr beindust rannsóknir í viðskiptum á það hversu miklum áhrifum eða upplýsingum starfsfólk gat komið á framfæri innan fyrirtækisins. Rannsakendur sáu fyrir sér flókið tengslanet þar sem áhrifamesta starfsfólkið sem bjó yfir mestu þekkingunni var sett í innsta hring.
En Kim Cameron, prófessor við Háskólann í Michigan og frumkvöðull á sviði jákvæðrar vinnustaðasálfræði, prófaði annars konar kortlagningu: Hann raðaði starfsfólki upp út frá „samskiptaorku“ þeirra. Samskiptaorka gefur til kynna færnina í að mótivera, örva og blása öðrum byr í brjósti í samskiptum (í stað þess að sjúga úr þeim orkuna, eitthvað sem við höfum öll upplifað).
Og niðurstöðurnar? Tengslanet byggt á samskiptaorku spáði fjórfalt betur til um afköst í samanburði við tengslanet sem voru byggð á áhrifum eða upplýsingaflæði. Að hafa jákvæð og uppörvandi áhrif á aðra virðist mun mikilvægara þegar kemur að vinnuafköstum heldur en að fá fólk til að gera það sem þú vilt koma í verk eða með upplýsingastjórnun. Þegar leiðtogi smitar út frá sér jákvæðri orku verða afköst starfsfólks betri, það verður ánægðara og setur sig betur inn í verkin og líður betur heima fyrir. Cameron hefur fundið út með rannsóknum sínum að þeir sem smita út frá sér jákvæðri orku eru oft á tíðum áreiðanlegir, þakklátir, auðmjúkir, einlægir og fúsir til að fyrirgefa; þeir leysa líka vandamál vel af hendi. Samskiptaorka dregur þar af leiðandi ekki upp mynd af meðfæddum persónutöfrum eða þokka. Hún er eitthvað sem hægt er að rækta með sér.
2. Við erum afleit í að hvetja fólk til heilbrigðara lífs
Hvernig hvetjum við aðra til að huga betur að heilsunni?
Stofnanir, heilsuátök í vinnunni eða velviljaður maki geta komið þeim skilaboðum á framfæri að maður stundi of litla hreyfingu og sé of mikið á taugum. Fjölmiðlar eru einstaklega duglegir að framreiða þannig sögur.
En samkvæmt Alia Crum, prófessor við Háskólann í Stanford, geta svona skilaboð haft þveröfug áhrif. Hún hefur komist að því að það sem við höldum – sem sagt hugarfar okkar – getur haft líkamleg áhrif.
Í nokkrum hreint út sagt ótrúlegum rannsóknum hefur hún komist að því að streita skapar óheilbrigðari líkamleg viðbrögð þegar við trúum því að hún sé slæm fyrir okkur; hvað okkur finnst við leggja á okkur við æfingar í samanburði við aðra hefur meiri áhrif á dánarlíkur okkar heldur en sjálf hreyfingin; það sem við drekkum hefur áhrif á hormón sem stýra matarlyst og áhrifin fara eftir því hvað okkur finnst um drykkinn, hvort okkur finnst hann vera hollur eða við bara að dekra við okkur; og þyngd og blóðþrýstingur hjá hótelþernum lagaðist einfaldlega með því að sjá vinnuna fyrir sér sem líkamlega æfingu.
Að segja öðrum að lífstíll þeirra sé óheilbrigður getur þar af leiðandi gert illt verra.
Hvað er þá til ráða? Í stað þess að einblína á skaðsemi óheilbrigðrar hegðunar mælir Crum með því að gera heilsusamlegri valkosti meira aðlaðandi. Í einni rannsókninni komst hún að því að viðskiptavinir kaffihúsa neyttu meira af grænmetisréttum sem höfðu aðlaðandi nöfn: „sítrusgljáðar gulrætur“ í stað „gulrætur með sykurlausri sítrusdressingu.“
Í stað þess að hræða fólk með tölfræði er hugsanlega betra að segja frá gleðinni sem maður upplifði yfir kvöldskokkinu við ána með sólsetrið fyrir augum.
3. Kannski er líf þitt tilgangsríkara en þú gerir þér grein fyrir
Ertu í leit að tilgangi í lífinu?
Flestir þurfa ekki að leita langt yfir skammt, segir Laura King, prófessor við Háskólann í Missouri. Í hrífandi og tilfinningaríkum fyrirlestri hennar vitnar hún í rannsókn sem sýnir að litlir hlutir geti gefið manni aukinn tilgang: að sjá myndir af trjám sem sýna árstíðaskiptin; að morgni dags að vera minntur á orð sem tengjast morgunathöfnum (pönnukökur, beikon, sólarupprás); eða hafa meiri rútínu í lífi okkar.
Á hinn bóginn uppgötvaði King að skilningur okkar á tilgangi breytist lítið við andstreymi. Til dæmis drógu kosningarnar í Bandaríkjunum lítið úr lífstilgangi frjálslyndra (þótt þær hafi haft aðrar neikvæðar tilfinningar í för með sér).
Það er engin tilgangskrísa í heiminum, segir hún. Tilgangur tengist ekki bara einhverjum sérstökum stundum í lífi okkar; hann er hluti af heildarpakkanum sem lífið er, það blasir við ef við bara opnum augun.
„Fólk þarf ekki að vita hvernig á að finna tilgang með lífinu. Það þarf að átta sig á því að tilgangurinn er nú þegar til staðar,“ segir King. Og þegar við trúum á tilganginn í lífi okkar opnum við á fleiri jákvæðar tilfinningar og styrkjum tengsl okkar við aðra.
Þessi grein eftir Kiru M. Newman birtist fyrst þann 27. júlí 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.
Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.