Svarið skiptir máli fyrir andlega heilsu þína.

Það virðist sem allir séu með hamingjuna á heilanum nú á dögum. En á bak við hversdagslegar hugleiðingar okkar um málefnið höfum við okkar sannfæringar um hvað felst í hamingju – svör við spurningum á borð við: Getur maður breytt sínu hamingjuástand? Ætti maður undir öllum kringumstæðum að reyna sitt besta til að vera hamingjusamur? Hversu mikið tengist hamingja öðru fólki?

Þessar undirliggjandi sannfæringar skipta auðvitað máli. Í raun skipta þær svo miklu máli að þær snerta á þáttum á borð við almenna vellíðan, hvernig við höndlum streitu og ánægjuna sem við upplifum í samskiptum okkar við aðra.

Nú virðist ný rannsókn taka undir þetta, en með óvæntri vendingu. Í stað þess að notast við langa spurningalista til þess að skilja betur hugmyndir fólks um hamingjuna, þá voru yfir 500 nemendur í Bandaríkjunum og S-Kóreu spurðir að einni einfaldri spurningu í rannsókn sem var gerð á vegum Yonsei háskólans í S-Kóreu og Háskólans í Santa Barbara, Kaliforníu. Spurningin var svo hljóðandi: Hvaða þrjú orð koma upp í hugann þegar þú hugsar um hamingju? (Hvert er þitt svar? Trúðu mér, þú vilt fá að vita svarið seinna meir.)

Nemendurnir svöruðu skriflega og rannsakendurnir byrjuðu á því að telja saman öll félagslegu orðin á borð við „ást“, „fólk“ og „faðmlög“. Kóreubúarnir skrifuðu oftar félagsleg orð (42%) í samanburði við bandarísku nemendurna (32%).

Algengustu orðin sem kóresku nemendurnir notuðu voru „fjölskylda“ (hátt í 40% notuðu þetta orð), á meðan þeir bandarísku hneigðust að orðum tengdum tilfinningum (eins og „bros“ og „hlátur“), en félagslegu orðin tengdust þá frekar vinum eða vinasamböndum heldur en fjölskyldu.

Rannsakendurnir tóku eftir því að „Kóreubúar virðast tengja hamingjuna við samskipti en bandarísku þátttakendurnir fyrst og fremst við

[tilfinningalegt] ástand.“

Næsta skref var að bera hamingjuorð nemendanna saman við vellíðan þeirra samkvæmt spurningalista sem þau höfðu svarað. Í báðum löndunum greindu nemendur sem völdu félagsleg orð til að lýsa hamingju frá meiri lífsfyllingu og minni einsemd. Þeir upplifðu líka meiri nánd og fundu meiri þörf fyrir að tilheyra. Að tengja hamingju við tengsl og sambönd virtist mikilvægt fyrir vellíðan óháð uppruna og menningarlegum bakgrunni einstaklinga.

Rannsakendunum fannst „það vekja töluverða athygli að þrjú (félagsleg) orð sem einstaklingur velur að tengja við hamingju geti gefið vísbendingar um hamingjuástand viðkomandi. Þessar niðurstöður staðfesta á nýstárlegan hátt að félagsleg samskipti eru svo sannarlega ein af grunnstoðum hamingjunnar.“

Hver eru áhrifin sem þessi undirliggjandi tenging við hamingjuna hefur á vellíðan okkar? Þeir sem skilja mikilvægi félagslegra samskipta munu líklega leggja meiri rækt og alúð við samskipti sín við fólkið í kringum sig og það hefur verið sýnt fram á að það að gefa af sér til annarra auki hamingjuna. Rannsakendurnir prófuðu því eina tilgátu; fólk sem trúir því að hamingja tengist félagslegum þáttum sýnir það í verki með meiri tilfinninglegum stuðningi í samskiptum sínum við aðra.

Það átti augljóslega við ef tekið var mið af spurningalistum – en það eru án efa fleiri þættir sem spila inn í. Hugsanlega sinnir fólk almennt félagslífinu betur sem dæmi, eða finnur ekki fyrir eins miklu samviskubiti ef það tekur fjölskylduna fram yfir vinnuna. Hér er aðeins um fylgnirannsókn að ræða en framtíðarrannsóknir geta hugsanlega staðfest það enn frekar, að orðin sem við tengjum við hamingju hafi í raunveruleg áhrif á vellíðan okkar og þá með hvaða hætti. Niðurstöður eldri rannsókna hafa leitt í ljós að félagslegi þátturinn tengist aukinni hamingju og vellíðan. Þessi rannsókn hér er í takti við þær niðurstöður en hún varpar líka nýju ljósi á áhrifin sem ómeðvituð viðhorf okkar geta haft á hamingju okkar.

Þau sem stóðu að rannsókninni vilija meina að þessi undirliggjandi viðhorf geti mögulega gefið nákvæmari mynd af upplifun fólks á hamingju vegna þess að „frjálst hugsanaflæði opinberar oft meira um manneskjuna heldur en skýrar og fastmótaðar hugsanir.“ Orðin sem koma upp í huga okkar þegar við hugsum um hamingjuna eru eins konar „reynslupakki“ sem byggist á þáttum eins og uppeldi okkar, menningu og annarri lífsreynslu.

Ef þessar ómeðvituðu tengingar skipta máli, þá bendir það til þess að vellíðan okkar ákvarðast ekki eingöngu af þeim venjum sem við temjum okkur að gera eða sjálfshjálparbókunum sem við lesum spjaldanna á milli, heldur getur hún líka ákvarðast af aragrúa smáatriða sem veita manni einhvers konar örvun og mannlegu tengslunum sem við tökum kannski ekki einu sinni eftir – sem þýðir að fólkið sem við verjum tíma okkar með og umhverfið sem við lifum og hrærumst í getur verið meiri áhrifavaldur á hamingju okkar en við gerum okkur grein fyrir.

Þessi grein eftir Kiru M. Newman birtist fyrst þann 27. febrúar 2017 á veftímariti Greater Good sem er á vegum Greater Good Science Center við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum og er þýdd og birt á Heilsunetinu með þeirra leyfi.

Hægt er að nálgast upprunalegu greinina hér á ensku.